Mismunandi ófagtengd réttindi milli kjarasamninga Félags flugmálastarfsmanna ríkisins (FFR) og Sameykis stéttarfélags valda kergju og starfsóánægju hjá félagsmönnum.
Þetta segir Unnar Örn Ólafsson, formaður FFR, í samtali við mbl.is.
Fyrr í dag var greint frá því að samninganefndir FFR og Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu hefðu ákveðið í gær að boða til yfirvinnu- og þjálfunarbanns ásamt tímabundnum og tímasettum aðgerðum við öryggisleit og farþegaflutninga.
Var þessi ákvörðun tekin eftir að samtöl stéttarfélaganna við Samtök atvinnulífsins fyrir hönd Isavia reyndust árangurslaus.
Til útskýringar á stöðunni segir Unnar að á milli þessara tveggja félaga, Sameykis og FFR, sé fólk sem sinni nákvæmlega sama starfi en þó með sitthvora vinnuskylduna.
Sömuleiðis sé það þannig að í öðru félaginu fái félagsmaður á aukavakt greiddar tólf mínútur á hvern klukkutíma á sama tíma og félagsmaður í hinu félaginu fær einungis greiddan staðinn yfirvinnutíma.
„Ef þú ert mikið fyrir aukavaktir þá getur þú valið annað félagið og svo ef þú vilt betri vinnutíma þá hoppar þú yfir í hitt. Þannig að þetta er ekki gott,“ segir Unnar og bætir við:
„Þannig að með þessu, að hafa svona mun á milli kjarasamninga hjá fólki sem annað hvort vinnur sömu störf eða í stólum hlið við hlið, þá eru þau svolítið að búa til óánægju og kergju á vinnustaðnum. Það er svona það sem við viljum leiðrétta.“
Unnar áréttir að samningsaðilum greini ekki á um launaliðinn. Það séu allir að taka þátt í því verkefni að halda niður verðbólgu og þess hátta. Um sé að ræða atriði sem ekki sé hægt að láta kyrr liggja næstu fjögur árin.
„Það verður að leiðrétta þetta. Líka bara upp á andrúmsloftið á vinnustaðnum.“
Spurður út í nákvæmt fyrirkomulag á verkfallsaðgerðunum svarar Unnar því til að fyrirhugaðar séu fjögurra tíma vinnustöðvanir á fyrirfram tilteknum dögum.
Nánar verður greint frá því um hvaða daga ræðir síðar í dag.