„Banvænn sjúkdómur og hann fer ekki í sumarfrí“

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar.
Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Hákon

Meðferðar­stöð SÁÁ í Vík mun loka í sum­ar vegna fjár­skorts. Einnig verður göngu­deild­in lokuð í sex vik­ur. 

Sig­mar Guðmunds­son þingmaður Viðreisn­ar vakti at­hygli á mál­inu í Face­book-færslu í gær og sagði lok­un­ina skeyt­inga­leysi gagn­vart fólki með fíkni­sjúk­dóm. Um sé að ræða ban­væn­an sjúk­dóm sem fari ekki í sum­ar­frí. 

700 manns á biðlista

„Fólk sem leit­ar sér aðstoðar á Vogi í sum­ar fær sem sagt ekki neina sam­fellu í sinni meðferð. Eft­ir tíu daga á Vogi tek­ur ekk­ert við, hvorki göngu­deild né Vík, fyrr en eft­ir dúk og disk,“ seg­ir í færsl­unni. 

Sig­mar bend­ir á að 700 manns séu á biðlista hjá SÁÁ, og um hundrað manns á biðlista hjá Krýsu­vík. Sum­ar­lok­un í sex vik­ur muni bæta enn á þann vanda. 

„Mér finnst þetta vera skeyt­ing­ar­leysi gagn­vart fólki með fíkni­sjúk­dóm því heil­brigðisráðherra svaraði mér þannig í þing­inu síðasta haust að þetta myndi ekki end­ur­taka sig.“

Heil­brigðisráðherra ekki heyrt af lok­un­inni

Sig­mar kveðst í færsl­unni hafa spurt Will­um Þór Þórs­son heil­brigðisráðherra út í málið í dag. Þá hafi frétt­irn­ar komið hon­um á óvart og kvaðst Will­um ekki hafa heyrt af lok­un­inni. 

Þá hafi Will­um bent á að viðræður væru í gangi á milli SÁÁ og sjúkra­trygg­inga. Sömu­leiðis sé starfs­hóp­ur að vinna að því að móta stefnu til framtíðar í mála­flokk­in­um. 

„Það er allt gott og blessað en það þarf samt að hlúa að fólki í dag. Fólk veikist þótt nefnd­ir séu að störf­um og samn­ingaviðræður í gangi. Þetta er ein­fald­lega ban­vænn sjúk­dóm­ur og hann fer ekki í sum­ar­frí. Þetta er glatað.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka