„Banvænn sjúkdómur og hann fer ekki í sumarfrí“

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar.
Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Hákon

Meðferðarstöð SÁÁ í Vík mun loka í sumar vegna fjárskorts. Einnig verður göngudeildin lokuð í sex vikur. 

Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar vakti athygli á málinu í Facebook-færslu í gær og sagði lokunina skeytingaleysi gagnvart fólki með fíknisjúkdóm. Um sé að ræða banvænan sjúkdóm sem fari ekki í sumarfrí. 

700 manns á biðlista

„Fólk sem leitar sér aðstoðar á Vogi í sumar fær sem sagt ekki neina samfellu í sinni meðferð. Eftir tíu daga á Vogi tekur ekkert við, hvorki göngudeild né Vík, fyrr en eftir dúk og disk,“ segir í færslunni. 

Sigmar bendir á að 700 manns séu á biðlista hjá SÁÁ, og um hundrað manns á biðlista hjá Krýsuvík. Sumarlokun í sex vikur muni bæta enn á þann vanda. 

„Mér finnst þetta vera skeytingarleysi gagnvart fólki með fíknisjúkdóm því heilbrigðisráðherra svaraði mér þannig í þinginu síðasta haust að þetta myndi ekki endurtaka sig.“

Heilbrigðisráðherra ekki heyrt af lokuninni

Sigmar kveðst í færslunni hafa spurt Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra út í málið í dag. Þá hafi fréttirnar komið honum á óvart og kvaðst Willum ekki hafa heyrt af lokuninni. 

Þá hafi Willum bent á að viðræður væru í gangi á milli SÁÁ og sjúkratrygginga. Sömuleiðis sé starfshópur að vinna að því að móta stefnu til framtíðar í málaflokkinum. 

„Það er allt gott og blessað en það þarf samt að hlúa að fólki í dag. Fólk veikist þótt nefndir séu að störfum og samningaviðræður í gangi. Þetta er einfaldlega banvænn sjúkdómur og hann fer ekki í sumarfrí. Þetta er glatað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka