Fjöldi lögreglumanna svipaður og fyrir 35 árum

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknar.
Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknar.

„Fjöldi lögreglumanna í landinu er svipaður og fjöldi starfandi lögreglumanna var fyrir 35 árum þrátt fyrir að íbúum landsins hafi fjölgað um 60% á sama tíma,“ segir Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknarflokksins. 

Í ræðu sinni á Alþingi í dag vakti Stefán athygli stöðu löggæslumála í landinu í ljósi þess að þjóðfélagsgerðin hafi breyst mikið á þessum tíma.

„Gríðarlegur fjöldi ferðamanna sem heimsækir landið sem og að Ísland fer ekki varhluta að skipulagðri brotastarfsemi og netbrotum sem virða engin landamæri,“ sagði Stefán.

„Staðan langt frá því að vera viðunandi“

Hann segir breytingar á viðfangsefnum lögreglunnar hafa verið mætt af stjórnvöldum með millifærslum innan innra skipulags embættisins. 

„Staðan þar er langt frá því að vera viðunandi. Allt of fáir á vakt, menntunarhlutfall óviðunandi og þeir sem eru menntaðir eru með litla starfsreynslu.“

Þrátt fyrir hækkun á rekstrarframlögum og fjölgun lögreglunnar sé það skýrt að hans mati að þeim framlögum hafi verið varið í átaksverkefni tengdum breyttum veruleika lögreglu. Eftir sitji embættin með skerta grunnþjónustu ásamt skertri útkalls,- og grunnrannsóknir. Brýnt sé að brugðist sé við því nýrri fjármálaáætlun. 

„Því útkallslögregla er mikilvægur þáttur í grunninnviðum þjóðarinnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert