Hafa þurft að stugga við fólki

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. Á myndinni má einnig sjá …
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. Á myndinni má einnig sjá björgunarsveitabíla við Grindavík. Samsett mynd

Nokkuð hefur borið á því að fólk hafi reynt að komast fótgangandi að gosstöðvunum við Sundhnúkagíga, að sögn Úlfars Lúðvíkssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum.

„Við höfum þurft að stugga við fólki en það hefur ekki verið stór hópur. Þetta hafa mest verið erlendir ferðamenn,“ segir Úlfar við mbl.is.

Úlfar segir að lögreglan biðli til fólks að fara ekki fótgangandi að gosinu enda sé varhugavert að vera nálægt gossvæðinu þar sem fyrirvari geti orðið mjög stuttur ef kraftur færist í það eða nýjar sprungur opnast.

Hann segir að menn séu áfram í viðbragðsstöðu og fylgist vel með framvindu mála varðandi gosið, sem hefur mallað í Sundhnúkagígaröðinni frá því 16. mars.

Starfsemi í 15 fyrirtækjum í bænum

Úlfar segir að starfsemin í Grindavík hafi verið með svipuðum hætti síðustu vikurnar en að fáir dvelji í bænum.

„Samkvæmt nýjustu upplýsingum er starfsemi í 15 fyrirtækjum í Grindavík sem eru flest við hafnarsvæðið og það eru á þriðja hundrað starfsmenn að störfum í þessum fyrirtækjum. Þá er starfsemi í níu fyrirtækum í Svartsengi,“ segir lögreglustjórinn.

Að hans sögn var gist í tæplega 20 húsum í Grindavík síðastliðna nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert