Orðbragðið kynferðislegt, gróft og mjög meiðandi

Héraðsdómur segir að maðurinn hafi skýlaust játað brot sín og …
Héraðsdómur segir að maðurinn hafi skýlaust játað brot sín og það horfi til refsilækkunar. Ljósmynd/Colourbox

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðislega áreitni og hótanir. Maðurinn var enn fremur dæmdur til að greiða konu 250.000 kr. í miskabætur og 425.000 kr. í sakarkostnað. 

Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll 19. apríl en var birtur í dag, að héraðssaksóknari hafi gefið út ákæru á hendur manninum 29. febrúar. Hún er í tveimur liðum. 

Hótaði konunni á Messenger

Í þeim fyrri var manninum gefið að sök kynferðisbrot og hótanir, með því að hafa aðfaranótt og að morgni 26. október 2022 sent konu yfir 40 einkaskilaboð í gegnum samskiptamiðilinn Messenger og þannig áreitt hana með kynferðislegu orðbragði og hótað henni líkamsmeiðingum og lífláti. Voru skilaboðin ítrekuð og meiðandi og til þess fallin að særa blygðunarsemi hennar og vekja hjá henni ótta um líf sitt, heilbrigði og velferð.

Maðurinn sendi m.a. eftirfarandi skilaboð:

  • „Held ég gæti fullnægt þér big time“
  • „Sjitt hvað ég væri til í að sleikja á þér píkuna“
  • „Færð að finna fyrir því“
  • Lem ykkur bæði við rétt tækifæri“
  • „Jarða þig“

Skilaboð send um miðja nótt 

Í öðrum lið ákærunnar var maðurinn ákærður fyrir hótanir með því að hafa aðfararnótt 27. október 2022, frá kl. 02:27 til kl. 05:52, sent eftirtalin skilaboð á rafrænu formi til konunnar. Fram kemur í ákæru að skilaboðin hafi verið til þess fallin að vekja hjá henni ótta um líf sitt, heilbrigði og velferð.

Maðurinn sendi m.a. eftirfarandi skilaboð:

  • „Þú ert fkn dauð fyrir mér!“
  • „Nafnið þitt. Allt internetið mun löðra í sannleik. gangi þér vel að hrista það að þér. Tími fyrir sannleik! Game on, bieaaaaatch!“

Fram kemur í dómi héraðsdóms að maðurinn hafi játað háttsemi sína skýlaust. 

Stóð yfir í rúman sólarhring

Héraðsdómur segir að orðbragð mannsins hafi verið af kynferðislegum toga, gróft og mjög meiðandi. Þá hafi það verið ítrekað en skilaboðin hafi sér stað yfir rúman sólarhring.

„Vísast í þessu sambandi til dóms Landsréttar í máli nr. 204/2018 þar sem sakfellt var fyrir kynferðislega áreitni en ekki brot gegn blygðunarsemi, en um var að ræða skilaboð sem send voru á tæpum sólarhring og þannig ítrekuð háttsemi. Orðbragð ákærða var jafnframt til þess fallið að valda brotaþola ótta.“

Í dómnum kemur einnig fram, að maðurinn hafi með dómi í desember verið gert að sæta fangelsi í tvo mánuði, skilorðsbundið í tvö ár. 

„Var þar um að ræða brot framin sömu daga og í máli þessu og munu atvik tengjast. Brot þau sem ákærði er nú sakfelldur fyrir voru framin fyrir framangreindan dóm og því ber að dæma honum hegningarauka samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 77. gr. laganna. Ákærði hefur skýlaust játað brot sín og horfir það til refsilækkunar. Þá liggur fyrir í gögnum málsins bréf til brotaþola þar sem ákærði biðst afsökunar á háttsemi sinni. Fyrir dómi lýsti ákærði einlægri iðrun og eftirsjá vegna brota sinna. Jafnframt hefur hann fallist á bótaskyldu,“ segir í niðurstöðu dómsins. 

Hann var því dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. 

Konan fór fram á 800.000 kr. í miskabætur en dómurinn sagði að bætur væru hæfilega ákveðnar 250.000 kr. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka