Sættir sig ekki við nýja hurðarhúninn

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins saknar tæplega 150 ára gamals …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins saknar tæplega 150 ára gamals hurðahúns sem sjá má til hægri á myndinni. Í hans stað er komið nútímalegur húnn. Samsett mynd

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, telur að húsráðendur í Alþingishúsinu hafi hlaupið á sig þegar skipt var um hurðarhún á þingflokksherbergi flokksins.

Að sögn Sigmundar var nær 150 ára gamall hurðarhúnn fjarlægður. Í stað hans stað hefur verið settur nútímalegur stálhúnn með falsi. Sigmundur hyggst beita sér fyrir því að fá gamla húninn til baka og mun snúa sér að skrifstofustjóra með erindið.

Læsingin virkaði ekki sem skildi 

„Þetta var tískan árið 1881 og þetta er því nálægt því að vera 150 ára gamlir húnar og þessir hurðarhúnar eru um allt hús,“ segir Sigmundur. Ekki hefur verið skipt um húna á öðrum herbergjum í húsinu. 

Hann segir að læsingin hafi ekki virkað sem skildi í þingflokksherbergi Miðflokksins og því stóð hurðin gjarnan opin í hálfa gátt. Engu að síður var hægt að læsa með því að kunna réttu tökin á gamla húninum. Menn hafi þó sjaldnast haft áhyggjur af því hvort hurðin hafi verið læst eður ei.

Húnn úr skrifstofuhúsnæðinu? 

„Það hvarflar að mér að menn hafi átt afgang frá nýja skrifstofuhúsnæðinu og ákveðið að skella honum á hurðina. Ég vona í það minnsta að fleiri húnum verði ekki skipt út í gamla húsinu,“ segir Sigmundur Davíð.

Gamli húnninn er úr útskornum við.
Gamli húnninn er úr útskornum við. Ljósmynd/aðsend

„Mér þykir mjög vænt um þetta hús og einn af kostum þess að vera alþingismaður er að fá að vinna í þessu húsi. Við fengum úthlutað notalegu litlu herbergi í húsinu og eitt af því sem gerði það notalegt er að litlu sem engu hafði verið breytt frá 1881,“ segir Sigmundur.

Hann segir því söguna blasa við hvert sem augum er litið og því nokkuð stílbrot að sjá nýja húninn.

„Maður upplifir söguna í húsinu og það er ekkert leiðinlegt að taka í hurðarhún sem þingmenn hátt í 150 ár aftur í tímann hafa tekið í og maður upplifir að maður sé hluti af sögunni,“ segir Sigmundur Davíð.

Vill frekar hafa opið í hálfa gátt

„Svo mætir manni þetta fyrirbæri sem helst mætti ætla að væri til þess fallið að læsa einhverju öryggisrými. Ég dró fram lykilkortið mitt og tókst eftir nokkrar tilraunir að opna þetta. En ég myndi miklu frekar vilja hafa hurðina opna í hálfa gátt og ekki hafa áhyggjur af því frekar en að hafa þessa miklu læsingu,“ segir Sigmundur Davíð.

Að því viðbættu bendir hann á það að Alþingishúsið er friðað að innan sem utan eftir því sem hann kemst næst.

„Við eigum ekkert allt of mörg sögufræg hús á Íslandi og því er mikilvægt að vernda upprunaleikann,“ segir Sigmundur Davíð.

Nýi húnninn er öllu nýtískulegri.
Nýi húnninn er öllu nýtískulegri. Ljósmynd/aðsend

Gat ekki sætt sig við breytinguna 

Hann segir að í fyrstu hafi hann ætlað að sætta sig við breytinguna en því sem hann gekk oftar inn um dyrnar því meira sátu húnaskiptin í honum. Því sér hann þess kost vænstan að tala við Rögnu Árnadóttur skrifstofustjóra Alþingis og hyggst hann gera það á næstu dögum.

„Hurðin má alveg vera opin í hálfa gátt mín vegna ef það er ekki hægt að gera við læsinguna,“ segir Sigmundur Davíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka