Vísbendingar um að fljótlega gæti dregið til tíðinda

Benedikt segir að vísbendingar í gögnum Veðurstofu gefi í skyn …
Benedikt segir að vísbendingar í gögnum Veðurstofu gefi í skyn að það fari eitthvað að gerast fyrr en síðar. mbl.is/Hörður Kristleifsson

Sterkar vísbendingar eru um að fljótlega gæti dregið til tíðinda á gosstöðvunum við Sundhnúkagíga. Þrýstingur er að byggjast upp í kvikuhólfinu. 

„Það virðist vera að hægja á landrisinu og það er merkjanleg aukning í smáskjálftavirkni undanfarna daga,“ segir Benedikt Ófeigsson sér­fræðing­ur í jarðskorpu­hreyf­ing­um hjá Veður­stof­unni. 

Ný sprunga eða aukning í gosinu líklegasta sviðsmyndin

Hann segir líklegustu atburðarásina eins og staðan er núna vera einhvers konar aukningu í núverandi gosi, frekar en alveg nýtt eldgos.

„Hættulegast er ef það opnast ný sprunga út frá gosinu sem er nú í gangi, kannski nokkurra kílómetra löng sem myndi byrja með látum eins og þessi fyrri gos, að eitthvað í þeim dúr gæti gerst á hverri stundu. 

Hinn möguleikinn er að við förum að sjá aukningu í núverandi gosi. Eitthvað sem er ekki eins varasamur atburður en það er hinn möguleikinn sem við erum að horfa í. “

Benedikt bætir við að ýmislegt geti auðvitað gerst en hann telur þó ólíklegt að eitthvað gerist annars staðar en akkúrat á þessu svæði. 

Landris að nálgast efri mörk

Líkanreikningarnir sem byggja á landrismælingum eru farnir að sýna að heildarrúmmál kviku undir Svartsengi er metið yfir tíu milljón rúmmetrar.

„Landrisið er því farið að nálgast efri mörk í bilinu þar sem við höfum áður séð eitthvað gerast.“

Hingað til hefur eldgos eða kvikuhlaup orðið þegar kvikan í hólfinu undir Svartsengi nær átta til þrettán milljón rúmmetrum.

Það að hægi á landrisinu en að kvika flæði áfram inn í kvikuhólfið bendir til þess að þrýstingur sé að byggjast þar upp.

Veðurstofan er í stöðugu samtali við almannavarnir um stöðuna enda getur skapast mikil hætta á stuttum tíma ef eitthvað fer í gang, segir Benedikt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert