Frelsi sem fylgdi því að loka Önnu Jónu

Haraldur Þorleifsson opnaði veitingastað sinn Önnu Jónu í Tryggvagötu fyrir …
Haraldur Þorleifsson opnaði veitingastað sinn Önnu Jónu í Tryggvagötu fyrir um ári. Staðinn nefndi hann í höfuðið á móðir sinni heitinni. mbl.is/Ásdís

Veitingastaðnum Önnu Jónu hefur verið lokað. Haraldur Ingi Þorleifsson, eig­andi staðarins, staðfestir þetta í samtali við mbl.is. Hann kveðst hafa tekið ákvörðun um að loka staðnum fyrir tveimur eða þremur dögum og lýsir því að ákveðinn léttir hafi fylgt í kjölfarið.

Spurður hvers vegna hann hafi tekið þessa ákvörðun segir Haraldur að honum hafi ekki fundist skemmtilegt að reka veitingastað. 

„Mér fannst rosalega gaman að hanna staðinn. Síðan var bara mjög erfitt að byggja hann og þegar við byrjuðum að reka hann ætlaði ég að láta annað fólk um það.

Ég komst eiginlega að því í gegnum þetta ferli að mann þarf að langa að reka veitingahús til að reka veitingahús,“ segir Haraldur.

Ekki hafi gengið vel að finna einhvern annan til að reka staðinn segir Haraldur og bætir við að hann hafi í rauninni ekki kunnað að láta annað fólk sjá um reksturinn. 

„Ég er búinn að vera svo rosalega lengi að reyna og reyna. Alltaf að finna eitthvað nýtt og prófa eitthvað annað en svo fann ég að mér fannst þetta ekkert skemmtilegt.“ 

Framtíð Önnu Jónu óráðin

Engar ákvarðanir hafa verið teknar varðandi framtíð rekstursins eða húsnæðisins. Það verður bara að koma í ljós segir Haraldur. „Kannski kemur eitthvað sniðugt fólk sem langar að eiga svona stað og kannski geta þau gert eitthvað sniðugt.“

Haraldur sér fram á tap í kjölfar lokunarinnar en kveðst ekki vita hve mikið tapið verður. Reksturinn hafi verið mun dýrari en hann átti að vera. Mögulega hafi það verið reynsluleysi. Síðan hafi hann ekki gefið sér tíma til að læra að reka veitingastað.

Staðurinn er búinn að vera opinn í eitt ár og segir Haraldur síðasta ár hafa verið tilfinningaferli af ýmsum ástæðum. 

„Ég er búinn að vera að berjast við egóið mitt rosa lengi, að reyna að láta þetta ganga, en þegar ég tók þessa ákvörðun fyrir tveimur eða þremur dögum kom alveg svakalegur léttir.“

Erfitt rekstrarumhverfi

Spurður hvort erfitt rekstrarumhverfi hafi haft áhrif á ákvörðun hans segir Haraldur það hafa spilað inn í að einhverju leyti. Hann hafi lengi vonast til þess að næsti mánuðir yrði betri en sá fyrri, en að lokum hafi verið ákveðið frelsi í uppgjöfinni. 

„Staðurinn var vinsæll en ég fann ekki út úr því, kannski vegna reynsluleysis, hvernig módelið ætti að ganga upp án þess að vera bara með rosa mikið lokað.“

Erfitt hafi verið að vita hvenær gestir kæmu á staðinn og voru allskonar hlutir sem höfðu áhrif á það. Þá hafi þurft að vera með starfsmenn á staðnum þó það hafi verið lítið að gera. Að finna lausn á þessum vandamálum reyndist flókið.

Haraldur telur veitingabransann vera rekinn að miklu leyti á hugsjón og hafi það einnig verið tilfellið með Önnu Jónu. Hugmyndin hafi aldrei verið að græða mikið fé á rekstrinum. 

Nú taki annað við, en hvað það er þarf að koma í ljós. 

 „Ég er eiginlega bara að prófa að treysta lífinu og ég held að það gerist eitthvað annað nýtt og skemmtilegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka