Viðburðir í tilefni verkalýðsdagsins í dag munu hafa töluverð áhrif á vegfarendur á miðborgarsvæðinu og í Vesturbænum.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu nefnir sérstaklega hópakstur Sniglanna, sem fer frá Grandagarði klukkan 12. Þaðan liggur leiðin um Mýrargötu, Geirsgötu, Lækjargötu, Fríkirkjuveg, Sóleyjargötu, Gömlu Hringbraut, Vatnsmýrarveg, Hlíðarfót og Nauthólsveg. Aksturinn endar við Háskólann í Reykjavík.
„Vegna þessa verða tafir fyrir aðra vegfarendur á umræddri leið, en sérstök athygli er vakin á töfum sem verða á gatnamótum Hringbrautar við Vatnsmýrarveg og Hlíðarfót núna í hádeginu á meðan hópaksturinn fer yfir gatnamótin,” segir í tilkynningu frá lögreglunni.
„Þar má búast við talsverðum töfum og kannski betra fyrir aðra þá sem málið varðar að flýta/seinka för eða velja sér mögulega aðra leið að þessu sinni. Gera má ráð fyrir að umrædd hópkeyrsla standi yfir í allt að klukkustund, þ.e. frá Grandagarði að Háskólanum í Reykjavík,” segir þar einnig.