Dómari í máli landeigenda við bakka Þjórsár gegn íslenska ríkinu og Landsvirkjun lýsti yfir eigin vanhæfi í fyrirtöku í málinu.
Þetta staðfestir Friðleifur E. Guðmundsson, lögmaður landeigendanna ellefu, í samtali við mbl.is.
Að sögn Friðleifs voru allir lögmenn í málinu sammála um vanhæfi dómarans vegna tengsla hans við Guðjón Ármannsson lögmann Landsvirkjunar.
Friðleifur býst ekki við því að niðurstaðan í dag muni hafa áhrif á framvindu málsins.
„Það er allir nokkuð sammála um tímafresti og annað í þessu þannig að ég reikna ekki með að það verði nein breyting á,“ segir Friðleifur.
Hann bætir við að eins og er standi allar dagsetningar óbreyttar og það væri þá nýr dómari sem myndi mögulega breyta því.
Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í byrjun september að öllu óbreyttu. Héraðsdómur Reykjavíkur heimilaði flýtimeðferð dómsmálsins, en í lok júní hefst réttarhlé sem stendur fram í byrjun september og verður málið því ekki tekið fyrir fyrr en þá.
Dómari sem segir sig frá málinu á að passa að málið sé í farveg þangað til nýr dómari kemur inn en ekki er vitað hvaða dómari muni taka við málinu. Það fer nú til dómstjóra sem mun endurúthluta því til nýs dómara.
Friðleifur vonast til þess að það klárist sem fyrst, „vonandi bara fyrir helgi,“ bætir hann við.