Dómari vanhæfur í Hvammsvirkjunarmáli

Höfðuðu land­eig­end­urn­ir málið til að freista þess að fá fellt …
Höfðuðu land­eig­end­urn­ir málið til að freista þess að fá fellt úr gildi leyfi sem fiski­stofa veitti árið 2022 og sömu­leiðis heim­ild Um­hverf­is­stofn­un­ar fyr­ir Hvamms­virkj­un frá því fyrr í byrjun apríl. mbl.is/RAX

Dómari í máli land­eig­enda við bakka Þjórsár gegn ís­lenska rík­inu og Lands­virkj­un lýsti yfir eigin vanhæfi í fyrirtöku í málinu.

Þetta staðfestir Friðleifur E. Guðmunds­son, lögmaður landeigendanna ellefu, í samtali við mbl.is.

Býst ekki við að vanhæfi hafi áhrif á framhaldið

Að sögn Friðleifs voru allir lögmenn í málinu sammála um vanhæfi dómarans vegna tengsla hans við Guðjón Ármannsson lög­mann Lands­virkj­un­ar.

Friðleifur býst ekki við því að niðurstaðan í dag muni hafa áhrif á framvindu málsins. 

„Það er allir nokkuð sammála um tímafresti og annað í þessu þannig að ég reikna ekki með að það verði nein breyting á,“ segir Friðleifur. 

Hann bætir við að eins og er standi allar dagsetningar óbreyttar og það væri þá nýr dómari sem myndi mögulega breyta því. 

Málið verður tekið fyr­ir í Héraðsdómi Reykja­vík­ur í byrj­un sept­em­ber að öllu óbreyttu. Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur heim­ilaði flýtimeðferð dóms­máls­ins, en í lok júní hefst rétt­ar­hlé sem stend­ur fram í byrj­un sept­em­ber og verður málið því ekki tekið fyrir fyrr en þá. 

Dómari sem segir sig frá málinu á að passa að málið sé í farveg þangað til nýr dómari kemur inn en ekki er vitað hvaða dómari muni taka við málinu. Það fer nú til dómstjóra sem mun endurúthluta því til nýs dómara. 

Friðleifur vonast til þess að það klárist sem fyrst, „vonandi bara fyrir helgi,“ bætir hann við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert