Litlar breytingar hafa orðið á eldgosinu við Sundhnúkagíga í nótt að sögn Lovísu Mjallar Guðmundsdóttur, náttúrvársérfræðings á Veðurstofu Íslands.
„Það er áframhaldandi virkni í gígnum. Næturvaktin fylgdist vel með í nótt og það virðist benda til þess að virknin sé svipuð eins og hún hefur verið síðustu dagana,“ segir Lovísa við mbl.is.
Lovísa segir að minni háttar skjálftavirkni hafi verið á svæðinu allt frá því landrisið hófst við Svartsengi en ekkert í samanburði við virknina í aðdraganda eldgossins en það hófst þann 16. mars.
Lovísa segir þó að örlítil aukning hafi verið á skjálftavirkni og samkvæmt gögnum hefur landris ekki stöðvast.
Veðurstofan hefur gefið út að talsverð óvissa ríki um framhald gossins en telur líklegt að það dragi fljótlega til tíðinda.
Að sögn Lovísu munu vísindamenn rýna í nýjustu gögn á fundi sem hefst klukkan 9.30.