Skila vonandi tillögum til dómsmálaráðherra í dag

Hraun er farið að mjakast yfir varnargarðana.
Hraun er farið að mjakast yfir varnargarðana. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Almannavarnir stefna á að skila tillögum um aðgerðir til dómsmálaráðherra síðar í dag er varða frekari byggingu varnargarða á Reykjanesskaga. 

Hraunjaðarinn liggur alveg upp við varnargarðana og er hraun sums staðar farið að mjakast yfir.

„Við erum búin að láta hanna frekari varnargarða innan við þennan garð sem hraunið er komið og erum með það í ferli núna að skoða hvernig það geti gagnast. Það þarf að keyra hraunhermilíkön og allt slíkt sem þarf til þess að við getum lagt fram tillögu til ráðherra eins og við eigum að gera samkvæmt lögum,“ segir Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna.

Að sögn Víðis liggur ekki fyrir hvenær framkvæmdir við uppbyggingu nýrra garða gætu hafist. Hann segir þó ferlið ganga hratt fyrir sig.

„Kerfið er þannig upp sett að þetta á að geta gengið hratt fyrir sig þegar við erum búin að skila af okkur tilsettum gögnum. Það þarf bara að vanda það vel.“

Hækkuðu viðbúnað 

Mikil óvissa ríkir nú á Reykjanesskaga. Það mallar enn í eldgosinu við Sundhnúkagíga sem hófst 16. mars á sama tíma og land rís undir Svartsengi vegna kvikusöfnunar – þróun sem hefur ekki sést frá því að Reykjanesskaginn vaknaði árið 2020 eftir 800 ára dvala.

Hafa jarðvísindamenn m.a. spáð því að kvikan undir Svartsengi leiti í sömu gosrás og auki kraft yfirstandandi eldgoss til muna eða að nýtt eldgos brjótist út með tilheyrandi látum.

„Við hækkuðum okkar viðbúnað og fjölguðum fólki á vöktum. Fórum yfir allar okkar áætlanir fyrir nokkru síðan þegar það varð ljóst í hvað stefndi með þessu landrisi og hugsanlegar breytingar á atburðum,“ segir Víðir.

Gæti lokið fyrirvaralaust

Framleiðni eldgossins um þessar mundir er afar lítil og stafar lítil hætta af hraunrennsli eins og staðan er núna.

„Í dag virðist [hraunið] vera að renna vestur á svæði sem skapar enga hættu. Við sjáum hreyfingu í þá áttina. Streymið samkvæmt nýjustu tölum er mjög lítið, kannski einn rúmmetri á sekúndu,“ segir Víðir og heldur áfram:

„Við getum alveg séð að þessu gosi sem við sjáum núna ljúki án frekari fyrirvara. Þetta er orðið það lítið.

Hraunrennsli til suðurs væri áhyggjuefni

Ef að kvikan í kvikuhólfinu undir Svartsengi myndi brjóta sér leið upp til yfirborðs við Sundhnúkagíga, sama hvort það yrði í nýju eldgosi eður ei, þá myndi mikið og hratt hraunrennsli til suðurs vera helsta áhyggjuefni almannavarna.

„Á stórum köflum þar eru varnargarðarnir orðnir fullir – eða svona að minnsta kosti ekki lengur að sinna því hlutverki fullkomlega sem þeim væri ætlað. Eins og eðlilegt er. En við sjáum það líka að landslagið sem hefur myndast síðustu daga í hrauninu yrði að einhverju leiti hjálplegt við að beina því austur fyrir garðana,“ segir Víðir og bætir við:

„En allar svona lagnir, hvort sem það er heitt vatn eða rafmagn – það er búið að gera allar ráðstafanir sem hægt er til að verja þær á svæðinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert