Sögufræg grein um gamla klukku

Svona muna Íslendingar sinn frægasta rithöfund. Á seinni árum sínum …
Svona muna Íslendingar sinn frægasta rithöfund. Á seinni árum sínum ritaði Halldór greinar í Morgunblaðið sem vöktu þjóðarathygli. mbl.is/Ólafur K. Magnússon

Skáld og rithöfundar hafa lagt Morgunblaðinu til efni í þau 110 ár sem blaðið hefur komið út. Eru þær greinar og ljóð óteljandi, í blaðinu sjálfu og Lesbók.

„Mér er nær að halda að ég eigi heiðurinn af því að hafa tekið til birtingar í Morgunblaðinu fyrstu greinina, sem kom á prenti eftir Halldór Kiljan Laxness,“ segir Árni Óla blaðamaður í endurminningabók sinni Erill og ferill blaðamanns. Hún birtist 7. nóvember 1916 undir fyrirsögninni Gömul klukka og fjallaði um gamla forláta klukku sem var til í Laxnesi. Halldór var þá aðeins 14 ára (fæddur 23. apríl 1902) og skrifaði undir greinina H. Guðjónsson frá Laxnesi.

Greinin hefur lifað enda leyndi sér ekki að þarna væri á ferðinni verðandi ritsnillingur. Nóbelsskáld okkar Íslendinga.

„Til er klukka, sem átti fyr Ísleifur Einarsson etazráð á Brekku á Álftanesi, áður sýslumaður á Geitaskarði í Húnavatnssýslu. Mun hún hafa verið fengin hingað til lands á öndverðum síðasta fjórðung 18. aldar. Klukka þessi hefir fylgt ætt Í. E. nú um hundrað ár, utan nokkur ár. – Mun brátt að því vikið. Þess er víða getið, að ísleifur Einarsson var hugmaður og dugnaðar. – Unni hann framförum þjóðarinnar á öllum sviðum. Fyrsti endurbætti vefstóllinn kom hingað fyrir útvegun hans, sendur systur hans frá útlöndum. Sú kona var amma ömmu þess, er þetta ritar – Guðný Einarsdóttir að nafni.

Klukka þessi er að sögn ein hin fyrsta, er til landsins fluttist. Margt hefir á daga hennar drifið og frá mörgu gæti hún sagt hefði hún mál. Hún gæti nákvæmlega skýrt frá ýmsum atburðum úr lífi hins vaska lögmanns, er var aðal-andvígismaður Hundadagakonungsins, mannsins, er sagði: Skarphéðinn og postulinn Páll, það eru mínir menn, þess manns, er mat að jöfnu bæði líkams- og sálaratgerfi.“

Ekki er hér rúm til að endurbirta greinina í heild en það er ómaksins vert að lesa hana alla á timarit.is.

Halldór segir í greininni að komi maður inn á forngripasafn falli hugur hans í stafi við að standa augliti til auglitis við helgidóma fortíðarinnar.

Mun ítarlegri upprifjun má nálgast í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka