Unnar Örn Ólafsson, formaður félags flugmálastarfsmanna (FFR) segir að kjaraviðræður starfsmanna strandi ekki á launalið viðræðna. Hins vegar séu sértæk atriði á borð við réttindi í fæðingarorlofi og greiðslur fyrir aukavaktir sem sé bitbein viðsemjenda.
Fyrr í dag var send tilkynning um að starfsmenn FFR og Sameyki hefðu samþykkt verkfallsaðgerðir á Keflavíkurflugvelli.
„Við erum að vonast til þess að niðurstöður kosninga hreyfi við viðsemjendum okkar,“ segir Unnar.
Hann segir ekkert ósætti um launaliðinn. Hins vegar eru sértæk mál sem eru óleyst.
„Þetta snýst um réttindi sem eru í gildi í öðrum samningum Isavia,“ segir Unnar.
„Þetta snýst um vinnuskyldur, greiðslu fyrir aukavaktir, áhersla orlofs í fæðingarorlofi. Í raun allt saman atriði sem ekki er hægt að heimfæra á starfið sjálft,“ segir Unnar.
Hann telur sérstakt að málin séu komin á þann stað að boða hafi þurft til verkfalla.
„Þetta er engin svakalegur kostnaður á bakvið þetta. Þetta snýst um að fyrirtæki séu með ákveðna stefnu og SA þarf að ganga þá leið að jafna þetta,“ segir Unnar.