Heildarfjöldi þeirra einstaklinga sem slösuðust eða létu lífið í umferðinni á seinasta ári var 1.373 í alls 977 slysum. Voru þeir 243 fleiri en á árinu á undan. Átta einstaklingar, sex karlar og tvær konur, létust í jafnmörgum slysum í umferðinni í fyrra, einum færri en á árinu á undan. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýútkominni skýrslu Samgöngustofu um umferðarslys á árinu 2023.
Einstaklingar sem slösuðust alvarlega í umferðarslysum á seinasta ári voru 229 talsins, sem er 17,4% fjölgun frá árinu á undan. Ekki hafa fleiri slasast alvarlega í umferðinni á einu ári á umliðnum áratug og fjöldi þeirra aðeins einu sinni áður farið yfir 200 en það var á árinu 2016 þegar 215 slösuðust alvarlega. Á því ári létu 16 manns lífið í umferðinni hér og 18 á árinu 2017.
Bent er á að í kjölfar heimsfaraldursins hafa slysatölur hækkað ár frá ári sem megi m.a. skýra með því að erlendum ferðamönnum hefur fjölgað á ný og ferðamátar hafa breyst einkum með fjölgun rafhlaupahjóla. Slysatölurnar sýni að ekki hafi tekist að bæta hegðun og viðhorf ökumanna í umferðinni „og ljóst að ökumenn þurfa einnig að líta inn á við ef við ætlum að ná slysatölum niður á ný“, segir í samantekt.
„Árið 2023 kom illa út að flestu leyti en þó eru ljósir punktar inn á milli,“ segir ennfremur í skýrslunni. Ljóst sé að árangur hafi náðst í fækkun banaslysa á undanförnum árum bæði í sögulegu ljósi og samanburði við aðrar þjóðir. Hins vegar hafi samanlagður fjöldi látinna og alvarlegra slasaðra í umferðarslysum, sem var 237 í fyrra, ekki verið meiri á þessari öld. Ljóst sé að Íslendingar séu víðs fjarri því að ná markmiðum umferðaröryggisáætlunar hvað þetta varðar.
„Lítið slösuðum fjölgar að sama skapi töluvert, úr 926 í 1.136, eða um ca. 23% á einu ári,“ segir í skýrslunni.
Birt er mjög ítarleg greining á slysum í umferðinni í skýrslunni. Fram kemur m.a. að slösuðum af völdum ölvunaraksturs fjölgaði á milli ára úr 44 í 55 í fyrra. Fjöldi alvarlega slasaðra vegna ölvunar undir stýri stóð í stað á milli ára eða sjö alls. Enginn lét lífið af völdum ölvunaraksturs í fyrra en einn á árinu á undan. Slösuðum vegna fíkniefnaaksturs fjölgaði á milli ára úr 31 í 41 og alvarlega slösuðum vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna fjölgaði úr fjórum í sex.
Ítarlegri umfjöllun má nálgast í Morgunblaðinu í dag.