Héraðssaksóknari hefur ákært karlmann fyrir tvær nauðganir sem áttu sér stað árið 2021. Í öðru tilfellinu var um kynferðisbrot gegn barni að ræða.
Ákæran er í tveimur liðum. Í þeim fyrri er hann ákærður fyrir nauðgun með því að hafa föstudaginn 28. maí 2021, á salerni fyrir fatlaða á ónefndum stað í Reykjavík, haft samræði við konu án hennar samþykkis.
Maðurinn beitti konuna ólögmætri nauðung og nýtti sér yfirburði sína vegna aflsmunar er hann dró hana inn á salernið. Hann færði skolbekk fyrir hurðina til að varna henni útgöngu og öðrum inngöngu. Segir í ákæru að hann hafi káfað á brjóstum og kynfærum konunnar, klætt hana úr fötunum og haft við hana samræði, en konan reyndi ítrekað með orðum og í verki að fá manninn til að láta af háttseminni.
Í seinni lið ákærunnar, er maðurinn ákærður fyrir nauðgun, kynferðisbrot gegn barni og stórfellt brot í nánu sambandið með því að hafa laugardaginn 5. júní sama ár sett getnaðarlim sinn í eða við leggöng og endaþarm hálfsystur sinnar án hennar samþykkis. Þetta gerðist í herbergi á þáverandi heimili mannsins í Reykjavík. Segir í ákæru að maðurinn hafi nýtt sér yfirburðastöðu sína gagnvart stúlkunni vegna aldursmunar og traust hennar og trúnað til hans sem hálfbróður. Með háttseminni ógnaði maðurinn á alvarlegan hátt heilsu og velferð stúlkunnar, að því er segir í ákærunni.
Bæði brotin varða 1. málsgrein 194. gr. almennra hegningarlaga. Þar segir:
„Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann án samþykkis hans gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Samþykki telst liggja fyrir ef það er tjáð af frjálsum vilja. Samþykki telst ekki liggja fyrir ef beitt er ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti.“
Er þess krafist í ákærunni að maðurinn verði dæmdur til refsinga og greiðslu alls sakarkostnaðar. Til vara er þess krafist að manninum verði gert að sæta gæslu á viðeigandi stofnun eða öðrum vægari öryggisráðstöfunum samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga.
Konan sem maðurinn braut gegn, og greint er frá í fyrri ákæruliðnum, fer fram á að manninum verði gert að greiða henni 4 milljónir kr. í miskabætur.
Móðir barnsins krefst þess, vegna ólögráða dóttur hennar, að manninum verði gert að greiða stúlkunni 4 milljónir í miskabætur.