„Það lá alveg ljóst fyrir að ríkisvaldið þyrfti að koma að málefnum Grindvíkinga með afgerandi hætti.“
Þetta segir Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra í samtali við mbl.is en samþykkt var á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun að leggja fram lagafrumvarp hennar um að stofnuð verði sérstök framkvæmdanefnd um málefni Grindavíkurbæjar vegna jarðhræringanna og áhrif þeirra á byggð og samfélag.
„Ég er ekki að koma fram með þetta mál fyrst núna því þetta er í þriðja sinn sem ég kem fram með málið eftir að ég varð innviðaráðherra. Eftir því sem samtalinu við Grindavík vatt fram þá varð skýrara af hálfu Grindvíkinga hverjar þeirrar óskir og væntingar væru,“ segir Svandís.
Svandís segir það skipti miklu máli að virða sjálfstjórnarétt sveitarfélagsins en frumvarpið er unnið í samstarfi við bæjarstjórn Grindavíkur sem óskaði eftir samstarfi um tilhögun og stjórnarfyrirkomulag verkefna við óvenjulegar aðstæður vegna jarðhræringa í Grindavík.
Bindur þú vonir við að með skipun þessarar framkvæmdanefndar verði einhver vendipunktur í málefnum Grindvíkinga?
„Já ég geri það. Ég held að þetta verði til þess að við fáum skarpari fókus. Við erum búin að hafa stórt svæði af bæði ákvörðunum og álitamálum sem hafa bæði fallið fyrir utan venjulegt svið bæjarstjórnar annars vegar og hins vegar ákvarðanatökur almannavarna,“ segir Svandís.
Svandís telur að frumvarpið sé mjög gott og eigi að snerta á þessum hlutum. Hún segir að áskorirnar verði að marka með skýrum hætti línuna á milli þess sem er á ábyrgð bæjarfélagsins annars vegar og framkvæmdanefndarinnar hins vegar. Svandís segir ennfremur að aðalatriðið sé að taka hverja ákvörðun með opnum augum.
Svandís segir jarðhræringarnar í Grindavík séu eitt stærsta verkefnið í sögu náttúruhamfara á Íslandi.
„Það er vegna þess hversu mikil áhrif þessar náttúruhamfarir hafa á búsetu og byggð og sú mikla óvissa sem ríkir. Atburðurinn hefur staðið yfir mánuðum saman þar sem allt getur gerst. Eins og staðan er núna þá gætum við horft á sprungur rifna mjög hratt upp, við getum horft á lítinn gíg sem heldur lengi áfram að malla úr eða þá að þessi atburður hætti.“
Svandís segir mikilvægt að halda utan um alla þræði óháð því hvaða sviðsmynd verði að veruleika.
Það hefur ekki farið framhjá neinum að vissrar gremju hefur gætt á meðal íbúa Grindavíkur en þeir hafa til að mynda haldið mótmælafundi á Austurvelli þar sem mótmælt hefur verið seinum viðbrögðum stjórnvalda og fasteignafélagsins Þórkötlu. Svandís segir viðbrögð Grindavíkinga skiljanleg.
„Óánægja íbúa Grindvíkur er alveg skiljanleg. Óvissan er gríðarlega mikil og fólk þolir óvissu í ákveðinn tíma. Það vitum við þegar það er ógn eða einhvers konar áföll. En þegar þetta er orðið svo viðvarandi í langan tíma og að fólk þurfi að endurmeta sína framtíðarsýn og sjálfsmynd síns og fjölskyldu þá kalli það á álag sem enginn gat séð fyrir.“
Hún segir að þetta hafi ekki bara áhrif á samfélagsinnviði heldur líka innviði fjölskyldna og heimila. Svandís segir að það verði ekkert eins og það var í Grindavík.
„Ég held að það liggi alveg fyrir en það er í raun íbúarnir í Grindavík sem geta svarað þeirri spurningu hvort Grindavík rísi á ný. Ég held að það sem skiptir máli að við hin séum að minnsta kosti styðjandi í þeim ákvörðunum sem þeir taka.“