Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar í forsetakosningunum hófst í morgun og upp úr klukkan 14 höfðu 65 greitt atkvæði.
Kosið er í Holtagörðum í Reykjavík. Kjörstjóri segir að ekkert komi í veg fyrir að óákveðnir kjósendur kjósi oftar en einu sinni í kosningunum.
Einn þeirra sem var kominn til að greiða atkvæði var Halldór Jörgen Olesen. Hann hafði lagt nokkra vinnu á sig til þess að kynna sér málin en hann býr í Kaupmannahöfn og nýtti því heimsóknina til að greiða utankjörfundaratkvæði.
„Ég fór af stað fyrir 4-5 dögum til þess að reyna að átta mig á því hvað ég ætti að kjósa. Ég er búinn að hlusta á þætti og viðtöl – lesið hitt og þetta. Svo er ég búinn að heimsækja nokkrar kosningaskrifstofur og er nokkuð sáttur við alla frambjóðendur,“ segir Halldór.
„Þeir standa sig allir mjög vel en ég held að ég sé kominn með minn forseta.“
Ásdís Halla Arnardóttir er kjörstjóri í Holtagörðum og hún á von á því að dagurinn í dag sé lognið á undan storminum. Hún segist búast við því að 40-50 þúsund manns muni kjósa utan kjörfundar.
„Við þurfum að vanda okkur við að láta allt fara að reglum og lögum. Utankjörfundaratkvæði eru aðeins flóknari kosning. Það þarf að prenta út fylgibréf og annað.
Á kjördag þarf einungis að fara á sina kjördeild og setja atkvæði í kassann en nú eru þetta aðeins fleiri skref,“ segir Ásdís.
Að sögn Ásdísar er ekkert sem kemur í veg fyrir það að fólk kjósi oftar en einu sinni utan kjörfundar. Þannig getur fólk þess vegna skipt um skoðun allt þar til á kjördegi.
„Utan kjörfundar þá getur þú komið og kosið oft. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir það að þú komir aftur, þess vegna innan dagsins, ef þú ákveður að skipta um skoðun.“
Hún áréttar þó að alltaf sé það nýjasta atkvæðið sem gildir. „Þannig að ef þú kemur á kjördag og kýst líka þá gildir það atkvæði að sjálfsögðu.“