Bíllinn sem kviknaði í á þriðja tímanum í nótt stóð á bílastæði við Hörðukór í Kópavogi.
Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum sem teknar voru í nærliggjandi fjölbýlishúsi varð bíllinn alelda.
Stefán Kristinsson varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu sagði í samtali við mbl.is í morgun að altjón hefði orðið á ökutækinu. Slökkviliðið var fljótt að slökkva eldinn eftir að viðbragðsaðilar komu á vettvang.
Í dagbók lögreglu kom fram að bifreiðin hefði staðið mannlaus. Þá hefði engin hætta stafað af eldinum.