„Því miður hefur verið halli á rekstri leikskóla Reykjavíkurborgar síðustu misseri,“ segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur, í svari við fyrirspurn mbl.is um raunkostnað leikskóla borgarinnar sem var tæpum 2,5 milljörðum króna umfram fjárheimildir í fyrra.
„Það sem ræður mestu um þessa niðurstöðu er að reiknilíkan leikskóla fangar illa raunrekstur og fjárþörf leikskólanna miðað við núverandi þjónustustig. Nýtt líkan verður væntanlega tekið í notkun á komandi vikum og er gert ráð fyrir að því fylgi viðbótarfjárheimildir úr borgarsjóði. Þá á rekstur leikskólanna að verða innan fjárheimilda,“ segir sviðsstjórinn enn fremur.
Segir hann leikskólastjóra þó hafa staðið sig vel í því krefjandi verkefni að gæta aðhalds í rekstri leikskóla eins og í öðru skóla- og frístundastarfi.
Er eðlilegt að kostnaðarhlutfall foreldra hafi lækkað svo mikið sem raun ber vitni samtímis því að reksturinn stendur í járnum?
„Samstaða hefur verið um í samfélaginu um að auka ekki álögur á barnafjölskyldur og því hefur ekki komið til álita að hækka leikskólagjöldin í Reykjavík þrátt fyrir þessa rekstrarniðurstöðu,“ svarar Helgi.
Eins og fram kom í fréttum mbl.is í gær kom meðal annars fram í skýrslu fjármála- og áhættustýringar borgarinnar að liðurinn „annar rekstrarkostnaður“ hefði numið samtals 66,4 milljörðum króna á síðasta ári og farið 4,9 milljarða umfram fjárheimildir. Hafi helstu frávikin þar verið að finna í rekstrarkostnaði skóla- og frístundasviðs þar sem hráefniskostnaður mötuneyta hafi farið einn milljarð fram yfir fjárheimildir.