Halla Hrund Logadóttir hefur nokkrum sinnum gert það að umtalsefni í kosningabaráttunni að hún hafi alist upp í blokk í Árbænum. Staðreyndin er þó sú að hún ólst einnig upp í einbýlishúsi, en það hefur ekki fylgt sögunni fyrr en nú.
Þetta kemur fram í nýjasta viðtalinu við Höllu Hrund í Spursmálum og spannst umræðan um æskubúsetuna út frá því hversu miklum fjármunum frambjóðandinn hyggst verja til kosningabaráttunnar.
Orðaskiptin um þetta má sjá og heyra í spilaranum hér að ofan, en þau eru einnig rakin í textanum hér að neðan.
Hvað hyggstu eyða miklum peningum í baráttunni?
„Ég bara veit ekki nákvæmlega hvernig það þróast.“
Þú mátt eyða 70 milljónum.
„Já, ég get sagt þér að ég kem úr venjulegum bakgrunn, ef svo má segja, ég ólst hérna upp í bakgarðinum í blokk í Hraunbænum og...“
Reyndar í Viðarási 22 sem er einbýlishús.
„Já foreldrar mínir byggðu og við fluttum þangað þegar ég er komin á fermingaraldur. Ég kem úr venjulegu umhverfi, var mikið í sveit austur á Síðu.“
Þú leggur áherslu á blokkina, en þú bjóst líka í einbýlishúsi sem barn.
„Já, já, en ég er líka í þessu framboði, bara til að koma því að, sko við erum að sjá að það eru ekki allir í þessu samfélagi sem hafa það jafn gott. Það eru ólíkir hópar sem þarf að taka utan um og ég ólst upp í stúdíóíbúð í Hraunbænum þar til að ég var sex ára og ég hef fengið svo mikið af tækifærum og ég hef átt landið okkar að á svo marga vegu. Og ég er ekki viss um að sama stelpa sem myndi alast upp í blokk til sex ára aldurs hefði öll þau tækifæri í dag. Þannig að mig langar að við tökum utan um ólíka hópa, að við þéttum raðirnar.“
En eru það ekki bara stjórnmálamenn sem eiga að gera það?
„Nei, það er akkúrat hægt, sko embætti...“
Embætti forseta samkvæmt stjórnarskránni er ekki að bæta kjör fólks.
„Nei, en embætti forseta getur sannarlega orðið liðsmaður og talsmaður þess að við séum að hugsa um hvert annað, að við séum að draga saman ólíka þræði. Að við séum ekki að horfa á sundrungu heldur séum við að draga okkur saman. Þannig höfum við alltaf verið sterkust. Og af því að ég segi að ég er með þessi gildi þátttöku og samstarfs sem ég tala fyrir, að þau birtast ekki bara í því að við séum betri í að koma hlutunum í verk þannig, eins og ég hef talað um og þú varst að nefna sveitina, í tengslum við heyskap, en þau birtast líka í því, Stefán, að við erum að sjá faraldur einmanaleika í samfélaginu okkar, það er að birtast, t.d. ef við horfum á ungt fólk.“
Nú eru við farin að fara út um víðan völl.
„Nei, nei, við erum akkúrat farin að tala um það sem við eigum að tala um hérna.“
Þetta er ekki stjórnarskrár, þetta er ekki starfslýsingin samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Það er ekki verið að ráða forseta til að gera hvað sem er.
„En forseti á líka að tala fyrir samstöðunni. Hann á að draga, ég vil, ástæða þess að ég tala fyrir þátttöku og samstarfi er líka af því að við megum ekki horfa á unga fólkið okkar einangrast. Við verðum að fá þau til þess að vera með, framtíðin okkar byggir á því að við séum öll að taka þátt.“
Við tökum þessa umræðu lengra þegar við hittum þig austur á Héraði á mánudag, við Andrés munum hitta þig þar.
„Við erum hérna saman bara annan hvern dag.“
Já, já og svo munum við hittast aftur í lok maí í kappræðum hér, rétt áður en kosningabaráttunni lýkur. Við verðum að slíta þessu núna því við erum runnin út á tíma.
„Leyfir þú mér að koma með lokasetningu.“
Já eina setningu.
„Leyfðu mér að hafa þær þrjár. Nú er ég búin að vera á Norðurlandi, ég er búin að vera að heimsækja fyrirtæki sem eru að fjölnýta okkar auðlindir sem eru að skapa verðmæti og mig langar til að lyfta öllum þessu góðu verkum upp, þannig að við séum að...“
Við förum betur yfir það á mánudaginn.
Viðtalið við Höllu Hrund má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan: