Þurftu að nauðhemla til að stöðva flugtak

Vöruflutningaþota Air Atlanta af gerðinni Boeing 747. Mynd úr safni.
Vöruflutningaþota Air Atlanta af gerðinni Boeing 747. Mynd úr safni.

Boeing 747-þota íslenska flugfélagsins Air Atlanta þurfti að snarhætta við flugtak er uppgötvaðist að hún var á aðkeyrslubraut en ekki flugbraut.

Samkvæmt umfjöllun Aerotime var um að ræða vöruflutningaflugvél í flugi fyrir Air Atlanta flugfélagið og átti atvikið sér stað á Ríad-flugvelli í Sádí Arabíu þann 22. apríl. 

Þotan var að taka á loft á leið til Naíróbí í Keníu fyrir hönd Saudi Arabian Airlines. 

Tókst að rugla aðkeyrslubraut saman við flugbraut

Rannsókn stendur nú yfir á því hvernig atvikið átti sér stað. Rannsakendur munu eflaust leitast eftir svörum við því hvernig áhöfninni tókst að rugla tiltölulega stuttri aðkeyrslubraut saman við mun lengri flugbraut og hvernig flugvallarstarfsmenn tóku ekki eftir mistökunum.

Gögn frá Flightradar24 sýna að flugvélinni var keyrt úr plássi sínu við flugvöllinn og ekið niður akstursbraut sem átti að leiða að flugbraut 33R sem er 4.205 metrar á lengd.

Beygðu flugmennirnir aftur á móti of snemma niður aðra akstursbraut, K, sem er aðeins 1.490 metrar að lengd, eða um þriðjungur flugbrautarinnar. 

Munaði 30 metrum

Klukkan 00.47 fengu flugmenn grænt ljós frá flugumferðarstjórum til að taka af stað á flugbraut 33R, en hófu í staðinn flugtak sitt af aðkeyrslubraut K.

Var flugvélin komin á 202 km hraða á klukkustund er flugmenn áttuðu sig á því að endi „flugbrautarinnar“ nálgaðist hratt og þurftu því að hemla hratt. Segir í skýrslu um atvikið að flugvélin hafi verið 30 metrum frá enda brautarinnar er flugmenn náðu að stöðva hana.

Er talið að slík nauðhemlun í heitu veðri í Ríad hafi valdið dágóðu tjóni á bremsum flugvélarinnar.

Eftir að hafa snúið aftur á flugvöllinn í kjölfar atviksins var flugi vélarinnar til Naíróbí aflýst og vélin var í höndum flugvirkja Air Atlanta í tvo daga áður en hún var send í annað flug til Hong Kong.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert