Manndráp á síðustu árum töluvert yfir meðaltali

Löggumyndir.
Löggumyndir. Samsett mynd/mbl.is/Eggert

Yfirgnæfandi meirihluti manndrápa á Íslandi er framinn af karlmönnum og þá eru karlmenn líka meirihluti fórnarlamba. Manndráp á árunum 2020 til ársins í ár eru yfir meðaltali síðustu 25 ára.

Þetta kemur fram í svari frá ríkislögreglustjóra við fyrirspurn mbl.is.

Á árunum 1999-2022 voru framin samtals 50 manndráp á Íslandi. Árið 2023 var grunur um fimm manndráp og ef sú tala er tekin með þá hafa 55 manndráp verið framin á Íslandi frá árinu 1999.

Til viðbótar eru þrjú mál komin upp á þessu ári þar sem grunur er um manndráp.

2,2 manndráp á ári að meðaltali

Sé fjöldi manndrápa frá árunum 1999-2024 tekinn saman þá voru framin að meðaltali 2,2 manndráp á ári. Sé aðeins horft til áranna 1999-2019 þá voru að meðaltali framin tæplega 1,9 manndráp á ári.

Ef skoðaður er fjöldi manndrápa árunum 2020-2024 þá er meðaltalið 3,8 manndráp á ári. Árið 2024 er enn ekki hálfnað og því gæti meðaltalið hækkað.

Sé skoðaður fjöldi manndrápa árunum 2020-2024 þá er meðaltalið 3,8 …
Sé skoðaður fjöldi manndrápa árunum 2020-2024 þá er meðaltalið 3,8 manndráp á ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kunningjar eða vinir

Í flestum manndrápsmálum frá árinu 1999 eru tengslin á milli fórnarlambs og geranda þau að um kunningja eða vini er að ræða.

Karlmenn eru meirihluti gerenda eða alls 43 í þessum málum og konur eru gerendur í átta málum, en stundum eru fleiri en einn grunaður í máli. Karlmenn eru einnig í meirihluta þolenda eða 30 og kvenþolendur í þessum málum eru 20.

Ekki fengust nánari tölfræðilegar upplýsingar um manndrápin árin 2023 og 2024.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert