Öllum samningsaðilum í kjaraviðræðum Félags flugmálastarfsmanna (FFR) og Sameykis við Samtök atvinnulífsins fyrir hönd Isavia er ljós sú ábyrgð sem hvílir á þeim.
Þetta segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
„Á meðan viðræður standa yfir þá er von um að ná samningum. Það er öllum samningsaðilum ljós sú ábyrgð sem hvílir á okkur. Viðræðurnar í dag fara vissulega fram í skugga þess að viðsemjendur okkar hafa boðað aðgerðir og skæruverkföll á Keflavíkurflugvelli sem að óbreyttu hefjast innan örfárra daga með tilheyrandi röskun fyrir farþega og beinu fjártjóni fyrir fyrirtæki. Þetta er í þriðja sinn á innan við hálfu ári sem boðað er til aðgerða á Keflavíkurflugvelli sem er mikið umhugsunarefni,” segir Sigríður Margrét.
„Við erum nú þegar farin að sjá verðbólguna minnka og verðbólguvæntingar lækka, þess vegna skiptir miklu máli að þeir samningar sem enn á eftir að ljúka vinni með en ekki gegn markmiðinu um að ná niður verðbólgu svo við eygjum von um lækkun vaxta,” bætir hún við.
Sigríður Margrét segir samninganefnd SA standa vörð um launastefnuna sem var mörkuð eftir mikla vinnu og samvinnu við meirihluta stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði. Öll samningsatriði séu kostnaðarmetin og allir séu að vanda sig.
„Stöðugleiki kemur nefnilega ekki af sjálfu sér og verkefnið er ekki búið. Við vonum að bjartsýni og samningsvilji viðsemjenda okkar í upphafi dags skili okkur í mark,” segir hún.