Segja ekkert komið fram sem sanni sök flugmannsins

Frá aðgerðum við Þingvallavatn 22. apríl þegar vélin var hífð …
Frá aðgerðum við Þingvallavatn 22. apríl þegar vélin var hífð upp úr vatninu. Ljósmynd/RNSA

Aðstandendur flugmannsins Haraldar Diego, sem lést í flugslysinu á Þingvallavatni í febrúar 2022, segja ekkert komið fram sem sanni sök hans heldur byggi skýrsla Rannsóknarnefndar samgönguslysa á getgátum um hvort hinn mannlegi þáttur hafi orsakað slysið.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem lögmaður sambýliskonu og barna Haraldar sendi á fjölmiðla.

Í skýrslu nefndarinnar er komist að þeirri niðurstöðu að orsök slyssins sé viljandi eða óviljandi lending vélarinnar á ísilögðu vatninu. Við lendingu fór hjól vélarinnar í gegnum ísinn og sökk vélin á aðeins tveimur mínútum.

Eru mann­leg­ir þætt­ir tald­ir meðverk­andi í slys­inu, annað hvort ákvörðun­ar­villa og of­mat á eig­in getu ef lenda átti á vatn­inu, en færni­villa sem snýr meðal ann­ars að tækni­legu um­hverfi ef fljúga átti í lít­illi hæð.

Í yfirlýsingunni aðstandenda segir að jafnvel þótt komist væri að því að hinn mannlegi þáttur hafi haft áhrif í slysinu, þá liggi ekki fyrir hvort sá þáttur hafi verið af völdum óeðlilegrar áhættusækni eða glæfraskapar af hálfu flugmannsins, eða hvort um annan utan að komandi þátt hafi verið að ræða. Er ítrekað að ekkert sé komið fram sem sýni fram á sök hans.

Mynd úr skýrslu Rannsóknarnefndarinnar sem tekin var úr flugvélinni klukkan …
Mynd úr skýrslu Rannsóknarnefndarinnar sem tekin var úr flugvélinni klukkan 11:48 rétt áður en vélin lenti á vatninu.

Vísað er til þess að þeir sem þekkt hafi til Haraldar úr fluginu væru sammála um að varfærni hafi ávallt verið honum efst í huga. „Ekkert er fram komið sem sýnir að annað hafi verið upp á teningnum hinn örlagaríka dag,“ segir í yfirlýsingunni.

Aðstandendur óska jafnframt eftir svigrúmi til frekari tjáningar í fjölmiðlum og segjast vonast til þess að friður skapist um málið og að aðstandendur allra sem létust megi öðlast frið frá sálarraunum sínum.

Yfirlýsingin í heild:

„Vegna umfjöllunar fjölmiðla í kjölfar skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa um flugslysið sem varð í Þingvallavatni þ. 3. febrúar 2022 vilja aðstandendur Haraldar Diego, flugmanns TF ABB, koma eftirfarandi á framfæri:

Í fyrsta lagi óska aðstandendur eftir svigrúmi til frekari tjáningar í fjölmiðlum um slsysið. Hinn þungbæri atburður hefur enn mikil og djúp áhrif á sálarlíf þeirra, eins og vænta má, og telja aðstandendur sig ekki reiðubúna til að veita fjölmiðlum viðtöl.

Í öðru lagi benda aðstandendurnir á að ekkert er fram komið sem sannar sök flugmannsins, Haraldar Diego, sambýlismanns og föður aðstandendanna, heldur byggir Rannsóknarnefnd samgönguslysa á getgátum um hvort hinn mannlegi þáttur hafi orsakað slysið. Jafnvel þótt komist væri að því, að hinn mannlegi þáttur hafi haft áhrif þennan afdrífaríka dag, þá liggur ekkert fyrir um það hvort sá þáttur hafi verið af völdum óeðlilegrar áhættusækni eða glæfraskapar af hálfu flugmannsins, eða hvort um annan utan að komandi þátt hafi verið að ræða. Þannig benda aðstandendur flugmannsins á að ekkert sé fram komið sem sýnir sök hans.

Í þriðja lagi er bent á, að skýrslunni er ekki ætlað að varpa ljósi á sök einstakra aðila, heldur eingöngu orsakir svo draga megi lærdóm af slysinu til framtíðar til varnar öðrum slysum. Flugmenn, og áhugamenn um flug, sem þekktu Harald Diego af eigin raun eru sammála um að varfærni hafi ávallt verið honum efst í huga. Ekkert er fram komið sem sýnir að annað hafi verið upp á teningnum hinn örlagaríka dag.

Með vísan til alls framangreinds óska aðstandendur Haraldar Diego þess að friður skapist um málið, og að aðstandendur allra sem létust megi öðlast frið frá sálarraunum sínum.

Með virðingu og vinsemd,

f.h. aðstandenda Haraldar Diego,

Gísli Kr. Björnsson, lögmaður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert