„Verulega brugðið að sjá þennan þátt“

Hildur Björnsdóttir segir fyrrverandi borgarstjóra Dag B. Eggertsson slá ryki …
Hildur Björnsdóttir segir fyrrverandi borgarstjóra Dag B. Eggertsson slá ryki í augu fólks. Samsett mynd

„Það skorti alla fagmennsku við gerð þessara samninga. Það virðist sem þáverandi borgarstjóri hafi annað hvort ekki gert sér grein fyrir þeim verðmætum sem hann færði olíufélögunum án endurgjalds, eða hafi hreinlega ekki haft dug til að bera sig eftir þeim. Borgarstjóri hefur því farið annað hvort bláeygður eða huglaus inn í viðræðurnar, því hann bað ekki um krónu í skiptum fyrir uppbyggingarheimildir á verðmætum lóðum í eigu borgarinnar. Í því felst okkar gagnrýni.“

Svo hljóðar tilkynning sem Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík sendi frá sér í kjölfar umfjöllunar Kastljóssins í kvöld um umdeilda samninga Reykjavíkurborgar við olíufélögin um bensínstöðvalóðir borgarinnar.

Áætlað er að verðmæti byggingarréttar á þeim tólf bensínstöðvalóðum, sem séu í fyrsta fasa samninga borgarinnar við olíufélögin, sé um 10 milljarðar krón, að því er fram kemur í þættinum.

María Sigrún Hilmarsdóttir, fréttakona á RÚV, stóð að umfjölluninni sem átti að birtast í Kveik en Maríu var vikið úr Kveiksteyminu nýlega. Var hann eins og áður sagði birtur í Kastljósinu í kvöld.

Engan hafi órað fyrir hvað vakti fyrir borgarstjóra

„Okkur er auðvitað verulega brugðið að sjá þennan þátt,“ segir Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, í samtali við mbl.is.

Hún segir borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins hafa fylgst grannt með þessu máli síðan samningarnir komu á borð borgarstjórnarinnar árið 2021 og hafi gagnrýnt hvernig staðið var að þeim.

„Við studdum markmiðið sem lagt var upp með árið 2019 um að ganga til viðræðna við olíufélögin um að fækka bensínstöðvum í borgarlandinu svo hægt væri að nýta lóðirnar til íbúðauppbyggingar. En engan óraði fyrir að þetta væri það sem vakti fyrir borgarstjóra á sínum tíma.“

Hún segir það mikið áfall að áætlað sé að verðmætin sem hafi verið afhent olíufélögunum séu svo mikil eða um 10 milljarða króna.

Áætlað er að verðmæti byggingarréttar á þeim 12 bensínstöðvalóðum, sem …
Áætlað er að verðmæti byggingarréttar á þeim 12 bensínstöðvalóðum, sem séu í fyrsta fasa samninga borgarinnar við olíufélögin, sé um 10 milljarðar króna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fúsk og slóðaskapur

Innt eftir viðbrögðum við röksemdafærslu Dags B. Eggertssonar, fyrrverandi borgarstjóra, í viðtali við Maríu Sigrúnu í þættinum, segir Hildur hana í raun ótrúlega.

„Mér finnst þetta bara alveg ótrúlegt og þetta mál allt dæmigert fúsk og slóðaskapur af hálfu þessa meirihluta,“ segir Hildur.

„Hvernig hann reynir að slá ryki í augu fólks með því að halda því fram að þegar lagt hafi verið af stað í þessa vegferð árið 2019 hafi það algjörlega verið ljóst að þarna ætti að gefa olíufélögunum þessa byggingarrétti,“ bætir hún við og segir fyrrverandi borgarstjórann lengi og víða hafa haldið því fram.

Það komi aftur á móti fram í þættinum að þetta atriði hafi alls ekki verið í skýrt í raun svo óskýrt að María Sigrún bendi Degi á í þættinum að í samningunum komi hvergi fram að olíufélögin eignist byggingarréttinn.

Málið afgreitt fyrir luktum dyrum

Fjórir núverandi og fyrrverandi borgarfulltrúar koma aftur á móti fram í þættinum og segja það ekki hafa komið skýrt fram og að vinnubrögð í tengslum við samningana hafi verið óeðlileg. Segir í þáttunum að málið hafi verið tekið til afgreiðslu og samþykkt hjá borgarráði um hásumar þegar borgarstjórn hafi verið í sumarfríi.

„Þetta var afgreitt, stórt mál, fyrir luktum dyrum þar sem almenningur hafði ekki aðkomu að,“ sagði Eyþór Arnalds Laxdal, fyrrverandi oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Hildur segir Sjálfstæðisflokkinn hyggjast leggja fram tillögu á borgarstjórnarfundi á morgun um að það verði gerð óháð úttekt á samningunum og aðdraganda þeirra. Almennt þurfi að skoða hvernig staðið sé að lóðamálum í Reykjavíkurborg og gæta þess að mál af þessum toga komi ekki aftur upp.

Óttast að skaðinn sé skeður

Spurð hvað slík úttekt kunni að hafa í för með sér kveðst Hildur því miður óttast að erfitt reynist að fletta ofan af því tjóni sem þegar hafi orðið.

„Ég óttast að skaðinn sé skeður og að tjónið sé orðið og það sé erfitt að vinda ofan af því. Það sé erfitt.“

Hún telji engu að síður mikilvægt að skoða hvers vegna slíkt hendi og hvort annað eins hafi átt sér stað áður til að tryggja gagnsæi og jafnræði.

„Það er auðvitað hús­næðis­skort­ur í borg­inni og hafa verktakar ítrekað bent á lóðaskort sem eina meginástæðu þess að hér byggist ekki upp nægt húsnæði,“ segir Hildur.

„Við þurf­um að tryggja aukið lóðaframboð og að sanngjörn og eðlileg sjónarmið ráði för við allar lóðaúthlutanir. Þegar borgarstjóri gengur til samninga fyrir hönd okk­ar borg­ar­búa þarf áhersla hans auðvitað alltaf að vera sú að tryggja bestu hagsmuni borgarinnar, og eðlilegt verð fyrir þau verðmæti sem eru framseld.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert