Vinna hafin við gerð nýs varnargarðs

Frá Grindavík.
Frá Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vinna hófst við gerð nýs varnargarðs við Grindavík í dag eftir að dómsmálaráðherra samþykkti framkvæmdina. Honum voru sendar tillögur frá almannavörnum í síðustu viku varðandi frekari byggingu varnargarða á Reykjanesskaga.

Garðurinn verður byggður fyrir innan varnargarðinn sem þegar er til staðar norðan og austan við Grindavík.

„Við erum að byrja að munstra okkur við þetta. Öll tól og tæki eru komin á svæðið og vinnan er hafin. Við eigum eftir að ákveða hæðalegu og sjá til hvernig gengur að ýta,“ segir segir Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu, við mbl.is.

Spurður hver tilgangurinn sé með gerð þessa varnargarðs segir Jón Haukur að honum sé ætlað að taka við ef það verður yfirflæði og sérstaklega við þunnfljótandi rennsli og leiða það framhjá bænum.

Á dögunum fór lítil hrauntunga yfir varnargarð austan Grindavíkur og talin er hætta á að slíkum tilfellum fjölgi ef kraftur færist í eldgosið við Sundhnúkagíga, sem hefur verið í gangi frá því 16. mars.

Jón Haukur segir ekki gott að segja til um það hversu langan tíma það taki að byggja varnargarðinn en skýtur á að það taki tvær til þrjár vikur.

Reiknað er með að varnargarðurinn verði um fimm metra hár og 800 til eins kílómetra langur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert