Jón Þorsteinsson, söngvari og söngkennari, lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri aðfaranótt 4. maí síðastliðins eftir skamma sjúkdómslegu, 72 ára að aldri.
Jón fæddist í Ólafsfirði 11. október 1951, sonur hjónanna Þorsteins Jónssonar og Hólmfríðar Jakobsdóttur, og ólst þar upp.
Ungur hélt hann utan til hjúkrunarnáms í Noregi og hóf söngnám í Ósló árið 1974 en hélt síðan til Árósa þar sem hann nam söng við Det Jyske Musikkonservatorium. Þá lá leiðin til Modena á Ítalíu þar sem hann stundaði nám hjá hinum víðfræga söngkennara Arrigo Pola og um tveggja ára skeið söng Jón, fyrstur Íslendinga, í óperukór Wagner-hátíðaleikanna í Bayreuth.
Árið 1980 urðu þáttaskil á söngferlinum þegar hann fluttist til Hollands og réðst til Ríkisóperunnar í Amsterdam þar sem hann starfaði í rúman áratug, söng þar um 50 einsöngshlutverk og vakti snemma athygli fyrir snjalla túlkun sína á tónlist samtímatónskálda.
Árið 1981 vann Jón fyrstu verðlaun í keppni Konunglega kirkjutónlistarsambandsins í Hollandi. Varð það til að beina áhuga hans og kröftum í auknum mæli að sígildri kirkjutónlist og fyrir túlkun sína á trúarlegri tónlist gat hann sér snemma frægðarorð á meginlandi Evrópu. Ekki síst var tónlistararfur kirkjunnar á ólíkum öldum Jóni hugleikinn eins og tveir hljómdiskar hans með sálmum og trúarljóðum vitna um svo og starf hans með Pólýfónkórnum í Reykjavík á árum áður.
Síðustu þrjá áratugi ævinnar kenndi Jón söng við ýmsa tónlistarskóla á Íslandi svo og Tónlistarháskólann í Utrecht þar sem þjálfun og velferð ungra söngvara af ólíku þjóðerni átti hug hans allan.
Eftirlifandi eiginmaður Jóns er Ricardo Batista da Silva.