Hyggst halda sauðfé á Bessastöðum

Hátt í tvö hundruð manns sóttu líflegan borgarafund Morgunblaðsins með Höllu Hrund Logadóttur forsetaframbjóðanda í félagsheimilinu Valaskjálf á Egilsstöðum í gærkvöldi.

Halla Hrund sagði á fundinum að kannski væri sjaldan meiri þörf en nú að velja forseta sem myndi leggja sig fram við að sameina þjóðina. Sagði hún þetta spurð um fjölda innflytjenda í landinu, ólíka menningarhópa og breytingar á lífsskoðunum margra landsmanna.

„Kannski er einmitt aldrei meiri þörf en einmitt núna á að við séum að horfa á þessa samstöðu. Og gleymum því ekki að við eigum þetta embætti saman. Það eiga allir þetta forsetaembætti saman. Og ég held einmitt, því þú kemur inn á fjölbreytileika og þú kemur inn á trúmál, að það skipti máli akkúrat á þessari stundu að horfa á það hvernig við getum þétt raðirnar,“ sagði Halla á borgarafundinum.

Blaðamenn­irn­ir Andrés Magnús­son og Stefán Ein­ar Stef­áns­son spurðu Höllu Hrund um fram­boðsáherslur henn­ar til embætt­is for­seta Íslands og þá fengu fundargestir tækifæri til að spyrja Höllu spurninga.

Íslenskt samfélag byggt á kristni

Halla Hrund sagði á fundinum að hún væri í þjóðkirkjunni.

„Ég hef mína trú og fyrir mér er það ekki vandamál og ég held líka að íslenskt samfélag byggi á gildum, kristnum gildum, sem ég held að sé mikilvægt að halda utan um,“ sagði hún, en útskýrði að sem forseti væri nauðsynlegt að geta tekið utan um alla í samfélaginu óháð trúarbrögðum.

Andrés spurði hana hvort hún myndi skjóta málinu til þjóðarinnar ef Alþingi myndi reyna að láta Ísland ganga í Evrópusambandið.

„Þetta er akkúrat dæmi um mál sem myndi hafa mikil áhrif. Það er að segja að þetta varðar það þegar við erum að tala um framsal á fullveldi og hér er eitthvað sem skiptir máli. Í svoleiðis málum myndi ég vonast til að þingheimur, við erum auðvitað með 63 þingmenn sem eru kjörnir á þing, og vonandi eins og hefur komið fram oft í umræðunni myndi þingið sjálft varpa þessu máli til þjóðarinnar. Og ef ekki þá er þetta eitt af þeim málum sem mér finnst að þjóðin eigi að fá að segja sína skoðun á,“ sagði Halla Hrund.

Stefán Einar spurði hana beint hvort hún væri hlynnt inngöngu Íslands í Evrópusambandið en hún vildi ekki svara því.

„Ég held að það sé mikilvægt að forsetinn sé ekki að blanda sínum skoðunum á einstökum málum,“ sagði Halla.

Stefán ítrekaði þá spurninguna og svaraði Halla þá:

„Ég get sagt þér að ég tel að það hafi verið gæfuspor fyrir Ísland að við höfum náð að halda hérna sjálfstæði yfir okkar auðlindum eins og í sjávarútvegi og ég held að það sé mikilvægt að við förum varlega þegar kemur að öllum slíkum málum, í samhengi við fullveldisframsal. Þannig að það er mín grundvallarafstaða,“ sagði Halla.

Einn fundargestur spurði hana hvort hún hygðist halda sauðfé og hesta á Bessastöðum og svaraði hún því játandi.

„Það verður ákveðið fé, kollótt eða ferhyrnt, á Bessastöðum. Það sama gildir í raun og veru um íslenska hestinn,“ sagði Halla.

Getur sameinað fólk

Þá var hún spurð um hverjir hennar styrkleikar væru og sagðist hún vera gædd þeim styrkleika að geta sameinað fólk.

„Mínir styrkleikar liggja í því að geta dregið fólk saman. Geta dregið ólíkt fólk saman. Ég hef búið í ólíkum löndum, ég hef þá hæfileika að geta byggt upp verkefni með fólki. Þannig að ég ætla að vera öflugur liðsmaður í ólíkum verkefnum.

Í ferðaþjónustu, í matvælaiðnaði, menningu og listum og hjálpa þeim að tengja saman, bæði hérna innanlands og utanlands, til að við stækkum tækifærin fyrir Ísland,“ sagði Halla og bætti við að hún væri menntaður stjórnmálafræðingur og að það myndi nýtast henni einnig.

Bar frumvarpið saman við Kárahnjúkavirkjun

Einn fundargestur lýsti yfir óánægju sinni með sjókvíaeldi og frumvarp matvælaráðherra um lagareldi. Halla sagði að þetta frumvarp væri dæmi um frumvarp þar sem hún myndi íhuga að nota málskotsréttinn. Þá líkti hún einnig ákvæði í frumvarpinu, um ótímabundin rekstrarleyfi fyrirtækja í fiskeldi, við virkjanir.

„Mér finnst ágætt að bera þetta saman við orkumálin, sem ég þekki vel. Þar eru til dæmis leyfisveitingar vatnsaflsvirkjana, eins og Kárahnjúkavirkjunar, þau eru ótímabundin. En þar hafa í raun og veru leyfi í sögulegu samhengi verið veitt til opinberra aðila eins og Landsvirkjunar. Sem er í þessum tilfellum áskorun að svo verði ekki, eða lítur út fyrir að svo verði ekki,“ sagði Halla og bætti við:

„Ef frumvarpið væri algjörlega óbreytt og það væri djúp krafa þjóðar um að skoða þetta sérstaklega, þá myndi ég íhuga það. Af þeirri ástæðu að þetta er mál sem gæti haft langtímaafleiðingar fyrir auðlindaráðstöfun, sem eru þessar stóru langtímaafleiðingar. En ég myndi fyrst og fremst vilja sjá að þingið myndi leysa þessi mál því að þar eru okkar kjörnu fulltrúar.“

Vilja forseta sem er á vaktinni

Sér­stak­ir álits­gjaf­ar voru fengn­ir á borg­ar­a­fund­inn til að spá í spil­in um komandi kosningar. Voru það þau Stef­án Bogi Sveins­son­ héraðsskjala­vörður og Hrafn­dís­ Bára Ein­ars­dótt­ir hót­eleig­andi.

„Ég held að fólk sé að leita fyrst og fremst að persónulegum eiginleikum frambjóðenda því að forsetinn hefur ekkert umboð til að framfylgja stefnu. Forsetanum er ekki ætlað að gera það. Forsetanum er ætlað að vera til staðar og geta brugðist við þegar ákveðnar aðstæður koma upp. Og fólk er að leita að réttum einstaklingi, einstaklingi sem það treystir til að vera á vaktinni og bregðast rétt við þegar það kemur upp sem getur komið upp,“ sagði Stefán Bogi um það sem hann teldi kjósendur væru að leita eftir.

Fleiri fundir eru á döfinni í Hringferð Morgunblaðsins, 14. maí verður borgarafundur á Hót­el Sel­fossi kl. 19.30 með Baldri Þórhallssyni. Þá verður borgarafundur á Græna hattinum á Akureyri 20. maí kl. 19.30.

Halla Hrund hyggst halda sauðfé á Bessastöðum.
Halla Hrund hyggst halda sauðfé á Bessastöðum. mbl.is/Brynjólfur Löve
Hátt í tvö hundruð manns mættu á forsetafundinn.
Hátt í tvö hundruð manns mættu á forsetafundinn. mbl.is/Brynjólfur Löve
Félagsheimilið Valaskjálf var fullt.
Félagsheimilið Valaskjálf var fullt. mbl.is/Brynjólfur Löve
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert