Meirihluti borgarráðs hefur ákveðið samþykkja tillögu Sjálfstæðismanna um að innri endurskoðun kanni þá samninga sem gerðir voru við olíufélögin í skiptum fyrir byggingarrétt. Þetta staðfestir Einar Þorsteinsson, borgarstjóri, í samtali við mbl.is.
Í umfjöllun Kastljóss í gær og í umfjöllun Morgunblaðsins í janúar segir að Festi og fleiri móðurfélög olíufélaganna hafi fengið byggingarrétt á silfurfati í samningum við borgina.
„Við í meirihlutanum erum sammála um það að í ljósi umræðu um þennan þátt, þá er ekkert því til fyrirstöðu að láta innri endurskoðun kanna aðdraganda þessara samninga og að því hvernig að þeim var staðið,“ segir Einar.
„Það er ekki gott að það sé vafi á því hvernig tekjum borgarinnar er ráðstafað og hvernig samningar um lönd og lóðir eru. Því er sjálfsagt mál að láta innri endurskoðun fara ofan í saumana á þessu máli,“ segir Einar.
Telur þú að innri endurskoðun sé rétti farvegurinn fyrir svona úttekt fremur en að einhver utan að komandi geri úttektina?
„Innri endurskoðandi á að hafa eftirlit með stjórnsýslu borgarinnar og er rétti farvegurinn fyrir svona úttekt. Sjálfstæðismenn lögðu fram tillögu um þetta á síðasta borgarráðsfundi. Tillögunni var frestað því hún kom beint inn á fundinn og venju samkvæmt er nýjum tillögum frestað fram á næsta fund. Við í meirihlutanum eru sammála um að taka þeirri tillögu vel,“ segir Einar.