„Það eru margir sem keyra bara eins og fífl þegar þeir fara framhjá okkur og mín reynsla er sú að atvinnubílstjórar séu verstir.“
Þetta sagði Þröstur Reynisson, verkstjóri á þjónustumiðstöð Vegagerðarinnar í Borgarnesi, á morgunfundi Vegagerðarinnar um átakið: Aktu varlega - mamma og pabbi vinna hér.
Öryggi starfsfólks við vegavinnu var til umfjöllunar á fundinum og Þröstur var einn þeirra sem hélt stutt erindi um reynslu fólks af því að starfa í nálægð við þunga umferð. Hann segir að hraði í gegnum vinnusvæði sé oft mikill sem eykur mjög hættu fyrir starfsfólk og vegfarendur.
Þröstur nefndi vinnu við holugerð á vegum en það er sú vinna sem starfsmenn eru lengst úti á veginum.
„Túristarnir eru stórhættulegir en mín líðan í umferðinni og sem ég hef lent verst í eru atvinnubílstjórar, ökumenn strætisvagna, rútubifreiða og vörubíla,“ sagði Þröstur.
Þröstur sagðist hafa hitt konu í Borgarnesi sem hann þekkir mjög og hafi spurt hana af hverju hún hafi keyrt framhjá honum og félögum hans sem voru við vinnu við að moka ofan í holur á Akrafjallsveginn á 130 kílómetra hraða.
Þröstur sagði að konan hafi svarað: „Er ekki bara betra að ég keyri hratt framhjá því þá er ég ekki eins mikið fyrir.“
Þröstur velti því upp hvernig virðingin sé borin fyrir starfsmönnum við vegavinnu.
„Við erum fyrir og okkur hefur verið sagt það úti á vegum. Við erum fyrir manninum með hjólhýsið sem er að drífa sig í fríið og ná stæði fyrir það á Akureyri.“
Í lok erindi síns sagði Þröstur: „Beint frá hjartanu og frá strákunum í þjónustustöðinni þá segi ég. Hættið að keyra eins og fífl í gegnum framkvæmdasvæði. Hraðinn er allt of mikill. Með honum skapast mesta hættan.“