Matsmönnum ber ekki saman um dánarorsök

Konan er ákærð fyrir að hafa orðið sambýlismanni sínum að …
Konan er ákærð fyrir að hafa orðið sambýlismanni sínum að bana í Bátavogi í september. mbl.is/Kristinn Magnússon

Réttarmeinafræðingar eru ekki að öllu leyti sammála um áverka og dánarorsök mannsins sem fannst látinn á heimili sínu við Bátavog í september, eða hvort samverkandi þættir kunni að hafa valdið dauða hans. 

Er ákæruvaldið enn að íhuga hvort það muni fara fram á að yfirmat verði gert á mati réttarmeinafræðinganna.

Þetta kom fram við fyrirtöku málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrr í dag.

Landsréttir staðfesti gæsluvarðhaldið

Dagbjört Guðrún Rúnarsdóttir er ákærð fyrir að hafa orðið manninum, sem var sambýlismaður hennar, að bana á heimili þeirra við Bátavogi 23. september.

Héraðsdómur féllst nýverið á að framlengja gæsluvarðhald yfir henni til 20. maí. Dagbjört kærði úrskurðinn til Landsréttar sem staðfesti niðurstöðu héraðsdóms.

Banvænt blóðsykursfall komi til greina

Að því er fram kom í héraðsdómi í dag ber matsmönnum ekki saman um hvort eða hversu mikinn þátt heilsufar hins látna kunni að hafa átt þátt í dauða hans. 

Þannig telur annar matsmaður í málinu það koma til greina að banvænt blóðsykursfall hafi átt þátt í dauða mannsins en hinn ekki.

Fari ákæruvaldið fram á yfirmat dánarorsaka verður það borið undir ákærðu og verjanda hennar en verjandi kvaðst frekar gera ráð fyrir því að mótmæla yfirmatinu ef til þess kæmi. Myndi dómurinn þá þurfa að úrskurða um hvort þörf væri á slíku mati. 

Verði ekki farið fram á yfirmat verður ákveðinn greinargerðarfrestur veittur fyrir verjanda og málið tekið til aðalmeðferðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka