Nú er hægt að horfa á sjónvarpið í sundi

Það er búið að setja upp risaskjá við sundlaugina á …
Það er búið að setja upp risaskjá við sundlaugina á Álftanesi sem var gjöf frá Ormsson Kristinn Magnússon

Árna Birni Kristjánssyni, fasteignasala og íbúa á Álftanesi, var brugðið þegar hann mætti með fjölskylduna í Álftaneslaug á dögunum. Búið var að koma upp stórum sjónvarpsskjá á laugarbakkanum og fótboltaleikur í gangi.

„Að fara í sund er orðið eitt af þessu fáa sem eftir er, þar sem fólk er ekki límt við síma eða skjá. Þetta er okkar fjölskyldutími og þegar við komum með krakkana í laugina var verið að sýna fótboltaleik í sjónvarpinu,“ segir Árni Björn.

„Ég tuða mjög sjaldan en þetta finnst mér alveg galið og ég vona að þetta verði tekið niður sem fyrst,“ sagði Árni Björn ennfremur.

Fyrst og fremst til að sýna landsleiki 

Ásta Sigrún Magnúsdóttir, upplýsingafulltrúi Garðabæjar, segir að Garðabær sé ekki eigandi skjásins og að bærinn hafi ekki lagt út fyrir neinum kostnaði.

„Það var íbúi á Álftanesi lagði til skjáinn og þessi hugmynd var samþykkt í tilraunaskyni. Segja má að þetta sé tilraunaverkefni og þarna hefur verið sýnt afþreyingarefni, til dæmis íþróttaleikir. Fyrst og fremst var talað um að sýna landsleiki og slíka viðburði. Í sumum laugum hafa verið viðburðir þar sem sýnd hefur verið kvikmynd eða listgjörningur t.d. á Sundlauganótt,“ segir Ásta Sigrún og bætir við:

„Með þessum skjá er möguleiki á slíku, en ekki var meiningin að það væri alltaf kveikt á honum. Ekki eru seldar auglýsingar á þennan skjá né aðrar tilkynningar. Við höfum orðið vör við að mörgum íbúum hugnast ekki þetta fyrirkomulag og því er það nú til endurskoðunar.“

Það er búið að setja upp risaskjá við sundlaugina á …
Það er búið að setja upp risaskjá við sundlaugina á Álftanesi sem var gjöf frá Ormsson Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert