Hermann Nökkvi Gunnarsson
Halla Hrund Logadóttir forsetaframbjóðandi segir að ef frumvarp matvælaráðherra um lagareldi færi í gegnum þingið óbreytt þá væri það dæmi um frumvarp sem hún myndi íhuga að skjóta til þjóðarinnar.
Þetta kom fram á forsetafundi Morgunblaðsins og mbl.is með Höllu Hrund á Egilsstöðum í gærkvöldi.
Einn fundargestur lýsti yfir óánægju sinni með sjókvíaeldi og frumvarp matvælaráðherra um lagareldi. Halla kvaðst skilja vel að sumt fólk í landinu hefði áhyggjur af frumvarpinu.
„Mér finnst ágætt að bera þetta saman við orkumálin, sem ég þekki vel. Þar eru til dæmis leyfisveitingar vatnsaflsvirkjana, eins og Kárahnjúkavirkjunar, þau eru ótímabundin. En þar hafa í raun og veru leyfi í sögulegu samhengi verið veitt til opinberra aðila eins og Landsvirkjunar. Sem er í þessum tilfellum áskorun að svo verði ekki, eða lítur út fyrir að svo verði ekki,“ sagði Halla og bætti við:
„Ef frumvarpið væri algjörlega óbreytt og það væri djúp krafa þjóðar um að skoða þetta sérstaklega, þá myndi ég íhuga það. Af þeirri ástæðu að þetta er mál sem gæti haft langtímaafleiðingar fyrir auðlindaráðstöfun, sem eru þessar stóru langtímaafleiðingar. En ég myndi fyrst og fremst vilja sjá að þingið myndi leysa þessi mál því að þar eru okkar kjörnu fulltrúar.“