Gæsluvarðhald yfir íslenskum karlmanni vegna rannsóknar á peningaþjófnaði úr verðmætaflutningabifreið í Hamraborg í Kópavogi í mars hefur verið framlengt um þrjá daga, eða til föstudagsins 10. maí.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni, en karlmaður um fertugt var í síðustu viku handtekinn vegna gruns um innbrot og þjófnað á fjármunum úr bifreið Öryggismiðstöðvarinnar.
Tveir menn stálu á bilinu 20 til 30 milljónum króna úr verðmætaflutningabifreiðinni fyrir utan veitingastaðinn Catalinu þann 25.mars. Í kjölfarið lýsti lögreglan á höfuðborgarsvæðinu eftir mönnum á dökkgráum Toyota Yaris með tveimur skráningarnúmerum sem hafði verið stolið af öðrum ökutækjum.