„Aðför að samfélaginu í heild sinni“

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. Samsett mynd/mbl.is/Eggert

„Ég er al­gjör­lega ósam­mála þess­ari ákvörðun pen­inga­stefnu­nefnd­ar Seðlabanka Íslands og veit hrein­lega ekki hvað henni geng­ur til.“

Þetta seg­ir Inga Sæ­land, formaður Flokks fólks­ins, við mbl.is þegar leitað var eft­ir viðbrögðum henn­ar við þeirri ákvörðun pen­inga­stefnu­nefnd­ar Seðlabanka Íslands um að halda óbreytt­um stýri­vöxt­um.

Vext­irn­ir verða áfram 9,25% og hafa hald­ist óbreytt­ir frá því í ág­úst í fyrra en næsta stýri­vaxt­ar­ákvörðun verður tek­in í ág­úst.

Óhress með taktík Seðlabank­ans

„Ég er mjög óhress með þessa taktík sem Seðlabank­inn er kom­inn með gagn­vart heim­il­um, litl­um og meðal­stór­um fyr­ir­tækj­um og öll­um skuld­settu í land­inu. Það er greini­lega mark­miðið að fólk hætti að geta greitt af eign­um sín­um, van­skil­inn fari vax­andi, kaup­mátt­ur­inn rýrni og fólk fari und­ir fallöxi verðtrygg­ing­ar­inn­ar,“ seg­ir Inga.

Inga seg­ir vaxta­stefnu Seðlabank­ans vera aðför að sam­fé­lag­inu í heild sinni. Hún seg­ir að á sama tíma og hús­næði skorti þá megi ekki byggja því þá skapi það þenslu og verðbólga hækki.

„Seðlabank­inn hef­ur enga stjórn á þessu og menn þar á bæ vita ekki hvort þeir eru að koma eða fara. Þetta er ólíðandi ástand en þetta virðist vera ein­beitt­ur vilji að halda þessu vaxta­stigi þrátt fyr­ir gerð hófstilltra kjara­samn­inga til fjög­urra ára og að verðbólg­an sé á niður­leið.“

Fólk að slig­ast und­an vaxta­okri

Inga seg­ist sam­mála Vil­hjálmi Birg­is­syni, for­manni Starfs­greina­sam­bands­ins, sem sagði við mbl.is að verið sé að slátra ís­lensk­um heim­il­um.

„Fólk er að slig­ast und­ir þessu vaxta­okri og ég held að hvergi í heim­in­um nema kannski í ein­hverj­um vanþróuðum og stríðshrjáðum ríkj­um sem við sjá­um svona háa vexti. Við erum að greiða þris­var sinn­um hærri vexti en önn­ur Evr­ópu­lönd í kring­um okk­ur. Svo syngja þess­ir háu herr­ar sama gamla söng­inn um að hér sé jöfnuður, kaup­mátt­ur mest­ur og hér sé best í heimi. Ef þetta er ekki fals­áróður þá er hann ekki til.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert