„Allt frá reiði yfir í létti“

149 manns verður sagt upp hjá bænum.
149 manns verður sagt upp hjá bænum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í næstu viku mun koma í ljós hverjir verða fyrir barðinu á hópuppsögninni sem Grindavíkurbær hefur boðað. 149 manns verður sagt upp störfum frá og með 1. júní.

Hörður Guðbrandsson, formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur, sat upplýsingafund með bæjarstjórn ásamt öðrum úr verkalýðshreyfingunni í dag.

„Mér finnst ég ekki geta annað en sýnt þessu skilning,“ segir Hörður í samtali við mbl.is.

„Ákvörðun um fækkun starfa er bæjarstjórn Grindavíkurbæjar afar þungbær, en bæjarfulltrúar eru einhuga um nauðsyn hennar. Aðgerðirnar verða sársaukafullar
fyrir starfsfólk, fjölskyldur þeirra og aðra íbúa Grindavíkur, en eru forsenda þess að sveitarfélagið geti snúið vörn í sókn þegar aðstæður breytast. Bæjarstjórn er sannfærð
um að með tímanum muni samfélag og mannlíf blómstra í Grindavík á ný,“ segir meðal annars í tilkynning sem bærinn sendi í fyrra dag.

Kom ekki á óvart

Fyrir liggur að ekki verður skólastarf í Grindavík á næsta skólaári og því segir Hörður að þetta hafi ekki komið sér á óvart.

Hann segir að nokkrir tugir félagsmanna hans séu líklega að missa vinnuna og að viðbrögð þeirra séu mismunandi. Flestir séu að velta fyrir sér hlutum sem snúa að réttindamálum, eins og veikindarétti, sumarfríi og orlofsrétti.

„Viðbrögðin eru auðvitað margs konar. Allt frá reiði yfir í létti,“ segir hann og bætir við:
„Mörgum hefur fundist þetta hafa hangið yfir og verið mjög óþægilegt,“ segir hann og útskýrir að mörgum sé létt yfir því að ákvörðun sé innan seilingar, þó ekki sé enn búið að kynna hverjir missa vinnuna.

Hörður telur að meginþorri þeirra sem missi vinnuna séu skólastarfsmenn en tekur þó fram að ekki sé enn komin út nánari útfærsla á því hverjir missi vinnuna.

„Ég legg bara áherslu á að þessu sé flýtt eins og mögulegt er svo að
fólk þurfi ekki að vera lengi í bið og óvissu í viðbót. Á þessum tímapunkti legg ég mesta áherslu á það,“ segir Hörður.

Hörður Guðbrandsson.
Hörður Guðbrandsson. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka