Draga gjaldskrárhækkanir til baka að hluta til

Borgarstjórn samþykkti í dag að draga sumar gjaldskrárhækkanir til baka …
Borgarstjórn samþykkti í dag að draga sumar gjaldskrárhækkanir til baka að hluta til. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gjaldskrár Reykjavíkurborgar vegna þjónustu við börn og barnafjölskyldur verða lækkaðar að jafnaði um 2% frá og með fyrsta júní næstkomandi til að liðka fyrir gerð kjarasamninga.

Gjaldskrár borgarinnar hækkuðu síðustu áramót og miðast boðaðar lækkanir við það að hækkanirnar sem gerðar voru um áramótin verði dregnar til baka að hluta til.

Verða hækkanirnar sem gerðar voru um áramótin því almennt ekki meira en 3,5% á árinu, miðað við árið í fyrra.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar en borgarstjórn samþykkti tillöguna í dag.

Hækkanir verði almennt ekki umfram 3,5%

Þann 7. mars síðastliðinn skrifaði Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, undir yfirlýsingu um stuðning ríkisstjórnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna kjarasamninga.

Reykjavíkurborg lýsti yfir vilja sínum til að endurskoða gjaldskrár sínar á fundi borgarráðs þann 21. desember síðastliðinn og horfa þá sérstaklega til gjaldskrár vegna þjónustu við börn og barnafjölskyldur, að er kemur fram í tilkynningunni.

„Tillagan sem samþykkt var í dag og felur í sér að gjaldskrárhækkanir þessa árs verði ekki umfram 3,5% er í samræmi við fyrrnefnda áskorun Sambands íslenskra sveitarfélaga,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert