„Ég eiginlega trúi þessu ekki enn þá“

Bergrós á heimsleikunum í fyrra.
Bergrós á heimsleikunum í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

Bergrós Björnsdóttir, 17 ára Selfyssingur, undirbýr sig nú fyrir síðustu undankeppnina fyrir heimsleikana í crossfit í fullorðinsflokki.

Það er þriðja keppnin til að eiga möguleika á að tryggja sér sæti á heimsleikunum, sem fara fram í ágúst. Bergrós endaði í 41. sæti í heiminum eftir fyrstu undankeppnina, eða í sama sæti og fyrirmyndin hennar, Sara Sigmundsdóttir.

Góð tilfinning

Hvernig er tilfinningin að enda í sama sæti og fyrirmyndin í crossfit?

„Ég eiginlega trúi þessu ekki ennþá, ég er búin að kíkja oft á listann yfir efstu keppendur og trúi ekki því sem ég sé,“ segir hún. 

Síðustu undirbúningskeppninni er skipt upp eftir heimsálfum og keppir Bergrós í Evrópukeppninni, sem er talin vera sú sterkasta og er samkeppnin þar einstaklega hörð.

„Ef ég er alveg hreinskilin, þá bjóst ég ekki við að komast inn í keppnina. Þannig að ég ætla bara að mæta, gera mitt besta og nýta þetta tækifæri sem reynslu fyrir framtíðina,“ segir hún einnig spurð úr í væntingar sínar fyrir síðustu undankeppnina. 

Bergrós á heimsleikunum í fyrra.
Bergrós á heimsleikunum í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

Þrjú stórmót á næstu þremur vikum

Bergrós keppir á þremur stórmótum á næstu þremur vikum. Fyrsta mótið hefst í dag og lýkur 13. maí og er síðasta undankeppni unglinga fyrir heimsleikana. Þá er ferðinni haldið til Frakklands þar sem síðasta undankeppni fullorðinna fer fram. Síðasta mótið í þessari atrennu er heimsmeistaramót ungmenna í ólympískum lyftingum sem er haldið í Perú 25. maí.

Hvernig hefur undirbúningurinn fyrir þessi mót gengið?

„Það er að ganga betur en ég bjóst við. Það er erfitt að æfa fyrir heimsmeistaramótið í lyftingum og undankeppni í crossfit á sama tíma, það er ekki að hjálpa hvort öðru. En við erum að einblína á heimsmeistaramótið á æfingum frekar en hin mótin.“

Bergrós gerir fastlega ráð fyrir því að komast inn á heimsleikana í unglingaflokki en hún endaði í þriðja sæti í unglingaflokki á heimsleikunum í fyrra. Þá bindur hún miklar vonir við keppnina í ár og stefnir á sigursætið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert