Hermann Nökkvi Gunnarsson
Stefán Bogi Sveinsson héraðsskjalavörður segir að Ásdís Rán Gunnarsdóttir sé í raun frambjóðandi Austfirðinga þar sem hún sé ættuð þaðan.
Þetta kom fram í máli Stefáns Boga á forsetafundi Morgunblaðsins og mbl.is á Egilsstöðum sem haldinn var á mánudaginn.
Hann sagði aðspurður að fólk búsett fyrir austan væri svolítið fjarri forsetakosningum iðulega.
„Reyndar okkar frambjóðandi hér úr héraði í dag ætti náttúrulega að vera Ásdís Rán Gunnarsdóttir. Hún er okkar kona, hún á fjölskyldu hér og hún er sá einstaklingur sem er skyldust mér af öllum þeim sem nokkurn tímann hafa gefið kost til embættis forseta Íslands,“ sagði hann og uppskar mikinn hlátur og klapp frá fundargestum.
Hátt í 200 manns sóttu forsetafundinn sem haldinn var með Höllu Hrund Logadóttur. Sérstakir álitsgjafar voru fengnir á borgarafundinn til að spá í spilin og voru það þau Stefán Bogi og Hrafndís Bára Einarsdóttir hóteleigandi.
Fleiri fundir eru á döfinni í Hringferð Morgunblaðsins en 14. maí verður forsetafundur á Hótel Selfossi klukkan 19.30 með Baldri Þórhallssyni. Þá verður forsetafundur á Græna hattinum á Akureyri 20. maí klukkan 19.30 með Katrínu Jakobsdóttur.
Horfðu eða hlustaðu á þáttinn í heild sinni á Spotify: