Fágæt eintök á uppboði

Uppboðinu lýkur á sunnudag.
Uppboðinu lýkur á sunnudag. Ljósmynd/Aðsend

Galle­rí Fold og Bók­in Klapp­ar­stíg standa nú fyrir bó­ka­upp­boði á vefn­um uppbod.is sem lýkur á sunnudaginn. Bækurnar eru til sýnis í Fold uppboðshúsi við Rauðarárstíg.

„Að þessu sinni er þar að finna fjölmörg sérlega falleg eintök eða fágæt, nema hvoru tveggja sé. Nokkuð er um gríðarlega fallegt bókband á uppboðinu en einnig úrval óbundinna og oft óskorinna bóka með fallegum, upprunalegum kápum,“ segir í tilkynningu frá Gallerí Fold og Bókinni Klapparstíg. 

Á uppboði eru verk eftir Stein Steinarr, Jóhannes Kjarval og af árituðum fyrstu útgáfum höfunda má nefna Dag Sigurðarson og Stefán Hörð Grímsson.

Fram kemur að Stefán Hörður hafi sjaldan áritað bækur sínar en á uppboðinu er tölusett eintak af Svartálfadansi Stefáns, nánar tiltekið tölusett eintak nr. 3 og áritað en einnig verður boðið upp tölusett eintak eftir Tómas Guðmundsson.

Hönnunarklassík á uppboði

„Af stórum verkum í viðhafnar skreyttu bókbandi mætti nefna Flateyjarbók 1-4, Skyggni, Þjóðsögur Jóns Árnasonar, tveggja binda útgáfan, og Þjóðsögur Ólafs Davíðssonar í þrem bindum. Þá má nefna Íslenzkar þjóðsögur og sagnir sem Guðni Jónsson tók saman, og hið margrómaða verk Íslenzk fyndni en bæði þessi verk eru bundin mjög fallega og vel inn,“ segir í tilkynningunni sem heldur áfram:

„Í svörtum kufli, fyrsta bók Þorsteins frá Hamri með kápumynd Ástu Sigurðardóttir, er á uppboðinu. Fallegt eintak, einnig Nóttin á herðum okkar eftir Jón Óskar í stóru broti, eintakið er óskorið. Þá má nefna Í hökli úr snjó, ljóð Einars Braga en ritið sem kom út árið 1958 hannaði Dieter Roth og telst hönnunarklassík.“

Hið margrómaða verk, Íslenzk fyndni.
Hið margrómaða verk, Íslenzk fyndni. Ljósmynd/Aðsend

Eintök um skáklistina

Tímarit í fallegu bandi eru nokkur, þar á meðal tímaritið Reykvíkingur. Þá má nefna bók Williams Faulkners, Smásögur, með kápu sem Sverrir Haraldsson gerði.

„Áhugafólk um skákmenningu hafa úr ýmsu að velja en boðin verða upp hin ýmsu tímarit sem gefin voru út hér á landi um skáklistina, innbundin. Má þar nefna Íslenzkt skákblað og Nýja Skákblaðið en ritin eru í fallegu bandi eftir bókbandsmeistara. Þá má nefna hið fágæta smárit, hér óbundið, Mjög lítill skákbæklingur eftir Íslandsvininn Willard Fiske, sem kom út í Flórens árið 1901 en um er að ræða frumútgáfu verksins,“ segir í tilkynningunni.

Sverrir Haraldsson gerði kápuna á þessa bók.
Sverrir Haraldsson gerði kápuna á þessa bók. Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert