Halla Hrund Logadóttir mælist með mest fylgi forsetaframbjóðenda í nýrri skoðanakönnun EMC markaðsrannsókna sem var gerð dagana 2. til 8. maí.
Niðurstöður sýna að Halla Hrund Logadóttir hefur mest fylgi frambjóðenda, eða 29,1%, Katrín Jakobsdóttir mælist með 22,9% og Baldur Þórhallsson með 21,8%. Jón Gnarr mælist með 13%, en aðrir mælast með minna fylgi, að því er segir í tilkynningu.
Könnunin var framkvæmd á netinu og voru svarendur þátttakendur í svarendahópi EMC markaðsrannsókna. Fjöldi svarenda var 816 og endurspegla þeir landsmenn 18 ára eða eldri með tilliti til lýðfræðiþátta.
Halla Hrund og Jón Gnarr mælast með meira fylgi á meðal karla en kvenna, en Baldur Þórhallsson er með meira fylgi á meðal kvenna en karla. Halla Hrund og Katrín sækja fylgi sitt í eldri hópa en Baldur og Jón Gnarr.
Þegar spurt var um hvaða frambjóðandi væri næstbesti kosturinn voru Baldur og Halla Hrund oftast nefnd. Baldur hjá tæplega 20% svarenda og Halla Hrund hjá rúmlega 19% svarenda. Halla Tómasdóttir var í þriðja sæti, en liðlega 17% svarenda nefndu hana og. Jón Gnarr kom þar á eftir, sem annar valkostur tæplega 15% svarenda. Á hinn bóginn mælist Katrín Jakobsdóttir sem annar valkostur tæplega 12% svarenda.
EMC markaðsrannsóknir greina mikla samsvörun á milli kjósendahópa Höllu Hrundar og Baldurs kemur í ljós að 37% kjósenda Höllu Hrundar setja Baldur í annað sæti og 42% kjósenda Baldurs segja Höllu Hrund vera næstbesta valkostinn.
17% þeirra sem myndu kjósa Höllu Hrund nefna Katrínu Jakobsdóttur sem valkost númer tvö og 14% þeirra sem myndu kjósa Baldur segja Katrínu vera næstbesta valkostinn.
27% þeirra sem myndu kjósa Katrínu nefna Höllu Tómasdóttur sem næstbesta kostinn og fjórðungur nefndi Höllu Hrund. 23% þeirra sem ætla að kjósa Katrínu nefndu Baldur sem næstabesta kostinn.