Gæsluvarðhald yfir tveimur litháískum karlmönnum, í tengslum við rannsókn lögreglu á andláti í sumarbústað í Kiðjabergi á Suðurlandi í síðasta mánuði, rennur út á föstudaginn.
„Það eru enn þá skýrslutökur í gangi og það verður tekin ákvörðun á morgun hvort krafa verði gerð um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir þeim. Rannsókn málsins stendur enn yfir en við teljum okkur vera komna með þokkalegustu mynd af því sem átti sér stað,“ segir Jón Gunnar Þórhallsson, yfirlögregluþjónn á Selfossi, við mbl.is.
Karlmaður á fertugsaldri fannst látinn í síðasta mánuði í sumarbústaði á Suðurlandi. Áverkar á manninum benda til að andlát hans hafi borið að með saknæmum hætti.
Upphafalega voru fjórir handteknir vegna málsins en tveimur þeirra var síðar sleppt þar sem ekki þótti ástæða til að halda þeim lengur. Jón Gunnar segir að það sé alltaf möguleiki að það þurfti að taka frekari skýrslur af þeim.