María Sigrún svarar Degi fullum hálsi

María Sigrún Hilmarsdóttir, fréttakona á RÚV.
María Sigrún Hilmarsdóttir, fréttakona á RÚV. Ljósmynd/Aðsend

María Sigrún Hilmarsdóttir, fréttakona á RÚV hefur svarað Facebook-færslu fyrrverandi borgarstjóra, Dags B. Eggertssonar, fullum hálsi.

Dagur birti í dag færslu þar sem hann gerði athugasemdir við umfjöllun Maríu Sigrúnar í Kastljósþætti sem birtist á mánudagskvöld um lóðasamn­inga borg­ar­inn­ar við olíu­fé­lög­in.

Fundarsalurinn ekki drungalegur

Í færslu á Facebook svarar María Sigrún athugasemdum Dags lið fyrir lið m.a. um að íbúðafjöldi sé oftalinn í umfjölluninni og mat á virði byggingarréttar og upplýsingar um hagnað olíufélaganna á reiki.

Segir María Sigrún að henni þyki leitt að heyra að Degi hafi þótt viðtalið of langt og fundarherbergi ráðhússins dimmt og drungalegt. Hún hafi fyrst og fremst verið að veita honum svigrúm, tíma og tækifæri til að svara þeirri gagnrýni sem fram hafi komið um samninga borgarinnar við olíufélögin.

„Fundarsalur borgarráðs er að mínu mati ekki drungalegur eins og Dagur segir í færslu sinni. Þvert á móti finnst mér hann bjartur með stórum gluggum sem snúa til austurs. Viðtalið var tekið milli kl.11 og 12.30, föstudaginn 5. apríl.“

Nýtt að tölvupóstasamskipti sé opinberuð

Þá segir hún það nýja upplifun að tölvupóstasamskipti hennar séu birt opinberlega, líkt og Dagur gerir í færslu sinni. Hún hafi því ákveðið að birta svör hans við fyrirspurnum hennar eftir að viðtalið var tekið. 

„Hann gerir athugasemd við að ég hafi ekki greint frá innihaldi póstsins í þættinum þar vísar hann í lið í samþykktinni sem hann segir alveg skýra að "einungis verði krafist greiðslu gatnagerðargjalda af hendi lóðarhafa". Hvers vegna stóð ekki skýrar í samþykktinni að til stæði að gefa olíufélögunum byggingarrétt fyrir milljarða? Hvers vegna vann borgin ekkert kostnaðarmat og ekkert lögfræðiálit áður en menn settust við samningaborðið,“ spyr María Sigrún. 

Vísa í tilkynningar borgarinnar og olíufélagana

Varðandi athugasemdir um íbúðafjölda sem bæði Dagur og Reykjavíkurborg hafa sagt að sé rangt með farin í umfjölluninni, ítrekar María Sigrún að hún hafi vísað beint í tilkynningu Reykjavíkurborgar þar sem fram kom að til stæði að byggja a.m.k. 500 íbúðir á þessum lóðum auk 200-300 til viðbótar.

„Dagur setur út á upplýsingar sem vísað er til í þættinum úr fjárfestakynningum olíufélaganna og fasteignaþróunarfélaga þeirra. Ég hef þessar fjárfestakynningar undir höndum frá Festi, Högum og Skel þar sem sjá má væntingavirði lóðanna og tilfærslu virðis þeirra milli félaga í þeirra eigu. Í þær var vísað í Kastjósþættinum,“ segir í færslunni.

Leitaði til verktaka og fasteignasala

Kveðst María Sigrún hafa leitað til verktaka og fasteignasala sem mátu virði byggingarréttar á lóðunum á bilinu 7-13 milljarða. Dagur segi að virði byggingaréttarins sé ofmetið í þættinum en að eins og fram komi í þættinum fari verðmætið eftir því hversu mikið byggingarmagn verði samþykkt. Virði byggingarmatsins muni á endanum líta dagsins ljós og dæmi þá hver fyrir sig. 

„Það er rétt hjá Degi að tölur um áætlað byggingarmagn á reitunum hafa verið á reiki. Sumar hafa lækkað en það er fyrst og fremst vegna andmæla íbúa sem búa í grennd við lóðirnar. Virðið eykst með tíma og metnaður olíufélaganna stendur til að hámarka það,“ skrifar María Sigrún.

Borgarstjórn í sumarfríi ekki borgarráð

Þá gerir hún einnig athugasemd við tilkynningu Reykjavíkurborgar þar sem segir að borgarráð hafi ekki verið í sumarfríi.

„Hvergi í þættinum var talað um að borgarráð væri í sumarfríi heldur var frá því greint að samningarnir hefðu verið samþykktir í atkvæðagreiðslu í borgarráði þegar borgarstjórn var í sumarfríi. Stór mál eru alla jafna tekin fyrir í borgarstjórn. Ég hef ekki fengið skýringar á því hvers vegna samningur borgarinnar við olíufélögin teldist ekki til þeirra.“

Færslu Maríu Sigrúnar má sjá hér fyrir neðan í heild sinni ásamt tölvupóstasamskiptum hennar við fyrrverandi borgarstjóra. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert