Eldgosið sem nú stendur yfir í Sundhnúkagígaröð er þrefalt stærra en en gosin sem urðu í desember og janúar. Hins vegar er það mun minna en gosið í Fagradalsfjalli árið 2021.
Þetta sýna mælingar Náttúrufræðistofnunar, Landmælinga, Veðurstofunnar, almannavarna og Jarðvísindastofnunar, auk þess sem notast var við gögn erlendra aðila úr Pleiades gervitunglunum. Þá hefur kortlagning frá Eflu verkfræðistofu einnig verið notuð, að því er segir í umfjöllun á vef Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands.
Mælingar sýna að hraunflæðið var 1.100 - 1.200 rúmmetrar fyrstu klukkustundina en svo dró hratt úr því. Var flæðið komið niður í um 100 rúmmetra eftir 6-8 klukkustundir.
Áfram dró úr hraunrennsli sem var komið niður í um 15 rúmmetrar á sekúndu. Er hraunrennslið nú komið í um einn rúmmetra á sekúndu.
Flatarmálið náði tæpum 6 ferkílómetrum þann 17. mars en hefur lítið aukist síðan og er nú um 6,2 ferkílómetrar.
Rúmmálið er talið vera um 34 milljónir rúmmetra, sem gæti samsvarað um 30 milljón rúmmetrum af þéttu bergi.