Ólafur E. Jóhannsson
„Málið er á lokametrunum og við erum að vinna að nefndaráliti sem verður afgreitt úr nefndinni fljótlega,“ segir Bryndís Haraldsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, í samtali við Morgunblaðið, en hún var spurð hvenær þess væri að vænta að nefndin afgreiddi svokallað útlendingafrumvarp frá sér.
Málinu var vísað til nefndarinnar eftir fyrstu umræðu á Alþingi og hefur verið til umfjöllunar þar síðan. Hefur nefndin fengið allnokkrar umsagnir um frumvarpið inn á sitt borð og einnig tekið á móti gestum.
Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að ætlunin sé að afgreiða frumvarpið úr nefndinni á morgun, föstudag, en Bryndís vildi ekki staðfesta að svo væri.
Spurningu um hvort hún teldi líkur á að skrifað yrði undir nefndarálitið án fyrirvara af hálfu Vinstri grænna, sagðist Bryndís gera ráð fyrir því að nefndarálitið yrði afgreitt að minnsta kosti af fulltrúum allra þeirra flokka sem mynda meirihlutann, þ.e. Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag, fimmtudag.