Eldgosinu í Sundhnúkagígum er lokið. Kvikusöfnun heldur þó áfram undir Svartsengi.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
„Sérfræðingar Almannavarna flugu dróna yfir gosstöðvarnar við Sundhnúk í gærkvöldi og þá var enga virkni að sjá í gígnum. Gosórói hafði farið minnkandi í gær og engar hraunslettur sáust úr gígnum í nótt. Þessu eldgosi sem stóð yfir í tæpa 54 dagar er því lokið,“ segir í tilkynningunni.
Í tilkynningunni kemur fram að kvikusöfnun undir Svartsengi haldi þó áfram.
„Kvikusöfnun heldur þó áfram undir Svartsengi og líkanreikningar gera ráð fyrir því að um 13 milljón rúmmetrar af kviku hafi bæst við í kvikuhólfið frá því að eldgosið hófst 16. mars. Því verður að teljast líklegt að kvika hlaupi aftur úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúkagígaröðina áður en langt um líður.“
Þá segir að Veðurstofan muni áfram fylgjast náið með stöðunni á gosstöðvunum.