Eldgosinu við Sundhnúkagíga er lokið en kvika streymir enn inn í kvikuhólf undir Svartsengi. Samhliða því hefur skjálftavirkni sótt í sig veðrið, sem er vísbending um aukinn þrýsting í kvikuganginum. Það má því búast við öðru gosi.
Veðurstofa lýsti yfir goslokum um kl. 8 í morgun en grunsemdir um goslok hafa verðið uppi frá því í gær, eftir að dregið hafði úr gosóróa á svæðinu. Þá sást heldur engin virkni í sjálfur gosopinu.
„Það sáust engin merki í gær um kvikuhreyfingar eða kviku í gosopinu,“ segir Minney Sigurðardóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Minney bætir við að Veðurstofan bíði alltaf sólarhring að hverju sinni áður en hún lýsir yfir goslokum. Gosið stóð því yfir í tæplega 54 daga.
Það má samt enn búast við öðru gosi, þar sem kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi.
Líkanreikningar Veðurstofunnar gera ráð fyrir því að um 13 milljón rúmmetrar af kviku hafi safnast undir Svartsengi frá því að gosið hófst, sem er talið vera í kringum þolmörk kvikuhólfsins.
Þá hefur skjálftavirkni aukist á svæðinu og Minney segir að allt að 60 skjálftar hafi riðið yfir á Reykjanesskaga síðasta sólarhring, sem er aukning miðað við síðustu daga.
„Þessi skjálftavirkni er að sýna fram á aukinn þrýsting vegna innflæðis kviku í kvikuhólfið,“ segir Minney og bætir við að skjálftum hafi fjölgað hægt og bítandi undanfarna viku.