„Gleymum því ekki að okkar vali fylgir ábyrgð“

Ljósmynd/Colourbox

Áhyggjur um að brotið sé á rétti barna, sem fæðast án aðkomu fagfólks, til heilbrigðisþjónustu fara vaxandi meðal ljósmæðra sem mbl.is hefur rætt við. Segja þær óljóst hver beri ábyrgð ef upp koma vandamál í fæðingunum sem bregðast hefði mátt við.

Tengjast þessar áhyggjur ljósmæðra vaxandi vinsældum fæðinga án aðkomu fagfólks hér á landi og beinast áhyggjur þeirra af þeim hópi kvenna sem afþakkar þá þjónustu sem ljósmæður telja mikilvæga til að vernda bæði líf og heilsu móður og barns. 

Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag hafa vinsældir fæðinga án aðkomu fagfólks farið vaxandi hér á landi. Um er að ræða svokallað „freebirth“ sem felst í því að foreldrar kjósi að fæða barn sitt í eigin umhverfi án aðkomu ljósmæðra eða annars heilbrigðisstarfsfólks og hefur mbl.is fjallað um þetta sem fæðing án aðkomu fagfólks.

Er þessi leið ólík heimafæðingum að því leiti að í heimafæðingum eru ljósmæður viðstaddar og til taks fyrir bæði móður og barn. 

Mikilvægt að fólk viti hvaða þjónustu það er að hafna 

Þær konur sem velja að fara þá leið að fæða barn sitt án aðkomu ljósmóður gera það af ýmsum ástæðum. Sumar bera fyrir sig að ef móðurinni líði vel og sé örugg þá verði fæðingin auðveldari og eðlilegri.

Þá er jafnframt misjafnt hvort konur sem velja að fara þessa leið fari í meðgönguvernd eða ekki, en konum ber ekki að sækja slíka þjónustu á meðgöngu. 

Anna Sigríður Vernharðsdóttir, leiðtogi ljósmæðra hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir ljósmæður sem sinna meðgönguvernd leggja áherslu á að tryggja að foreldrar séu nægilega vel upplýstir til þess að geta tekið upplýstar ákvarðanir í ferlinu. 

„Okkur finnst mjög mikilvægt að fólk viti hvaða þjónustu það er að þiggja og hvaða þjónustu það er að hafna.“ Þetta er þó ekki hægt að tryggja velji foreldrar sér að sækja ekki meðgönguvernd. 

Anna Sig­ríður Vern­h­arðsdótt­ir, leiðtogi ljós­mæðra hjá heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins. Krist­björg Magnús­dótt­ir …
Anna Sig­ríður Vern­h­arðsdótt­ir, leiðtogi ljós­mæðra hjá heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins. Krist­björg Magnús­dótt­ir heima­fæðing­ar­ljós­móðir og Hulda Hjart­ar­dótt­ir, yf­ir­lækn­ir fæðing­ar­t­eym­is Land­spít­al­ans. Samsett mynd/Aðsendar/Þ​orkell Þorkels­son

Leggur áherslu á að konan ráði för

Kristbjörg Magnúsdóttir heimafæðingarljósmóðir hefur mikla reynslu af heimafæðingum en hún hefur starfað sem heimafæðingarljósmóðir í tæpa tvö áratugi og komið að fjölda fæðinga á heimilum.

„Ég hef lagt mig fram um að fylgja óskum kvenna og hef verið í fæðingum þar sem ég hef aldrei komið við barnið, nema eftir fæðinguna þá hef ég aðeins fengið að skoða það,“ segir Kristbjörg sem leggur ríka áherslu á að konan ráði för og ljósmóðirin fylgi óskum hennar, svo lengi sem ljósmóðirin fái að vera til staðar og geti gripið inn í ef eitthvað bjátar á. 

Á sama hátt er það val kvenna hvort þær fari í meðgönguvernd eða ekki og hvort þær nýti sér alla þá þjónustu sem boðið er upp á í meðgönguvernd eða ekki. 

„Þú getur fengið hluta af þjónustunni þó þú þiggir hana ekki alla,“ segir Anna Sigríður. 

Ráðning ljósmæðra þvílíkt forgangsmál 

„Þegar maður hugsar aftur í tímann þá þótti hið mesta forgangsmál allstaðar í öllum sveitum og héruðum að vera með ljósmóður. Þetta voru meðal fyrstu starfsmanna sem voru ráðnir á landinu, ljósmæður. Þetta var þvílíkt forgangsmál,“ segir Hulda Hjartardóttir, yfirlæknir fæðingarteymis Landspítalans, ein þeirra ljósmæðra sem ræddi við mbl.is um þróun fæðinga án aðkomu fagfólks og áhætturnar sem í því geta falist. 

Hulda heldur áfram að rifja upp sögu ljósmæðra á Íslandi og bætir við að hér á árum áður hafi verið mun algengara að móðir og barn létust í fæðingu eða skömmu eftir hana. 

Í þessu samhengi veltir Helga Sól Ólafsdóttir, leiðtogi félagsráðgjafa hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, fyrir sér hvort landsmenn séu búnir að gleyma því hvers vegna meðgönguvernd var komið á og hvers vegna rík áhersla var lögð á að mennta ljósmæður þannig að þær gætu verið konum innan handar í fæðingu. 

Helga Sól Ólafs­dótt­ir, leiðtogi fé­lags­ráðgjafa hjá heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins og Guðlaug …
Helga Sól Ólafs­dótt­ir, leiðtogi fé­lags­ráðgjafa hjá heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins og Guðlaug Erla Vil­hjálms­dótt­ir, yf­ir­ljós­móðir á Land­spít­al­an­um. Samsett mynd/Ó​mar Óskars­son/Þ​orkell Þorkels­son

Getur skipt sköpum að greina ýmsa þætti á meðgöngu 

Ástæða þess að boðið er upp á meðgönguvernd á meðgöngu er að sögn Helgu Sólar svo hægt sé að greina ef einhver vandi er á meðgöngunni, þannig að hægt sé að tryggja viðeigandi læknismeðferð við fæðingu barns ef þörf er á. 

„Það er alveg klárt að það að greina ákveðna fóstur- eða byggingargalla, eins og hjartagalla, galla í þindinni, höfði og svo framvegis bætir útkomuna fyrir nýbura. Alveg klárlega,“ segir Hulda og útskýrir að þannig sé hægt að tryggja að barn fæðist á viðeigandi og öruggum stað og fái strax þá aðstoð sem þörf er á. 

Þá er jafnframt fylgst með öðrum þáttum í meðgönguvernd og nefndir Hulda sem dæmi að í tuttugu vikna sónar sé kannað hvort kona sé með fyrirsæta fylgju. Sé kona með fyrirsæta fylgju er hætt við að henni blæði út í fæðingu, en hægt er að koma í veg fyrir það með viðeigandi ráðstöfunum. 

„Ef þú ert með fyrirsæta fylgju þá fer að blæða á endanum og þá getur blætt mjög mikið og óvænt, í staðin fyrir að það sé búið að gera keisaraskurð áður en til þess kemur,“ segir Hulda. 

Við þetta bætir Guðlaug Erla Vilhjálmsdóttir, yfirljósmóðir á Landspítalanum, að sumar þeirra kvenna sem velja sér að fæða án aðkomu fagfólks hafi nýtt sér mæðravernd og upplifi sig öruggar á meðan aðrar hafa ekki farið í mæðravernd. Því sé ekki um einsleitan hóp að ræða sem velur að fæða án aðkomu fagfólks. 

Ekki hægt að neyða konu til að fæða með aðkomu ljósmóður

Í samtali blaðamanns við Helgu Sól og þær ljósmæður sem rætt var við var þeirri spurningu ávallt velt upp hvort réttur konunnar, eða foreldranna, um að taka þá ákvörðun að fæða barn án aðkomu fagfólks, væri ríkari en réttur barnsins til heilbrigðisþjónustu við fæðingu. 

Helga Sól segir það alveg skýrt að það sé aldrei hægt að neyða konu til að sækja mæðravernd eða fæða með aðkomu ljósmóður. 

„Það er aldrei hægt að brjóta á einstaklingnum þrátt fyrir að hann beri annan einstakling. Réttur manneskjunnar sem er „á lífi“ trompar alltaf rétt barnsins. Það er ekki fyrr en barnið er skráð inn í samfélagið sem hægt er að bregðast við af meiri krafti,“ segir Helga Sól og útskýrir að til þess að fagfólk geti brugðist við þá verði það að vita af tilvist barnsins. Þá bætir hún við: 

„Gleymum því ekki að okkar vali fylgir ábyrgð. Með valinu er móðirin að taka ábyrgðina á því ef eitthvað kemur upp.“

„Spurning hvaða rétt barnið hefur?“ 

Undir þetta tekur Kristbjörg og segir barnið eiga sjálfstæðan rétt til heilbrigðisþjónustu um leið og það sé fætt. Hún segir þó ekki ljóst hvernig sá réttur sé útfærður þegar kemur að fæðingu án aðkomu fagfólks, en það sé skýrt að barnið eigi sinn rétt óháð því hvaða ákvörðun foreldrar þess taka fyrir það. 

„Við getum ekki haft of mikið regluverk gagnvart konunum en það er spurning hvaða rétt barnið hefur?“ segir hún. 

Hulda og Guðlaug á Landspítalanum voru á svipaðri skoðun og sögðu þessari spurningu aldrei hafa verið almennilega svarað hér á landi. Þær nefndu þó sem dæmi að erlendis hefðu mæður verið sóttar til saka vegna fæðinga án aðkomu fagfólks þar sem barnið lenti í verulegum vanda.

„Þetta er svona pínu siðferðileg togstreita. Af því að ef barnið fæðist, en það verður skaði í fæðingu, sem verður til þess að barnið lifir við fötlun. Á það þá rétt á að fara í mál við móður sína? Þetta er eitthvað sem enginn getur svarað,“ segir Hulda. 

Fjölbreytt val um fæðingastaði 

Einhverjir kunna að spyrja sig hvaðan hugmyndin að fæðingum án aðkomu fagfólks kemur. Kristbjörg segir þetta hafa byrjað á stöðum þar sem heimafæðingar kosta mikið og eins þar sem fæðingar á sjúkrahúsum kosta mikið. Nefnir hún Ástralíu og Bandaríkin sem dæmi í þessu samhengi. 

„Ólíkt því sem þekkist hér á landi þar sem einungis þeir sem ekki eru sjúkratryggðir þurfa að greiða fyrir þjónustuna.“ 

Við þetta bætir Helga Sól að bæði fæðingar og meðgöngueftirlit í Bandaríkjunum séu mjög læknismiðaðar og því fari fæðingin mikið eftir því hvernig lækninum hentar. Þannig sé algengt að konur séu drifnar í keisara um miðjan dag ef ljóst þykir að barnið verði ekki komið í heiminn fyrir lok vinnudags læknisins. 

Hér á Íslandi er kostnaður við fæðingar þó enginn, velji kona sér að fæða á spítala, og ekki gerð krafa um að fæðingin eigi sér stað á tilteknum tíma sólahringsins. Auk þess hafa konur á Íslandi fjölbreyttara val um fæðingastaði en þekkist víða annars staðar. 

Sem dæmi getur kona sem kýs að fæða barn sitt heima óskað eftir heimafæðingu og fengið þannig ljósmóður heim sér til aðstoðar. Af þessu bera foreldrar lítinn kostnað þar sem Sjúkratryggingar Íslands greiða laun ljósmæðra í tengslum við heimafæðingar. 

Eins geta konur á Íslandi valið að fæða börn sín á þeim fæðingarheimilum sem hér eru starfrækt. Af þeirri þjónustu greiðir kona aðstöðugjald, en Sjúkratryggingar Íslands sjá um að greiða laun ljósmæðranna eins og í öðrum fæðingum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert