Magnús Tumi: Gýs líklega á næstu dögum

Magnús Tumi telur ólíklegt að kvikan leiti á ný mið.
Magnús Tumi telur ólíklegt að kvikan leiti á ný mið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Magnús Tumi Guðmundsson, pró­fess­or í jarðeðlis­fræði við Há­skóla Íslands, segir líklegt að það gjósi á næstu dögum.

„Staðan er sú að við erum komin með jafn mikla kviku – eða jafnvel meiri – þarna undir eins og hefur verið í upphafi og fyrir þau gos sem hafa orðið. Þar af leiðandi verðum við að reikna með því að við fáum endurtekningu á þessum atburðum innan skamms tíma. Það er líklegt að það gerist á næstu dögum,“ segir Magnús í samtali við mbl.is og bætir við:

„Þó það sé ekki alveg hægt að vera viss um allt í þessu þá er þetta bara staðan. Við fáum kannski svipaða byrjun og í fyrri gosunum.“

Jarðskorpan veik við Sundhnúkagígaröðina

Hann segir að undir Svartsengi hafi verið kvikuinnflæði í sex og hálfan mánuð og að engin merki séu um að flæðið sé að stöðvast. Hann segir langmestar líkur á að næsta eldgos verði við Sundhnúkagígaröðina.

„Ástæðan fyrir því er að hún er aðal veikleikinn. Þar er gangur búinn að brjótast hvað eftir annað inn á nokkurra vikna millibili og þar með er jarðskorpan mjög veik og langminnsta fyrirstaðan gegn því að kvika brjótist upp. Þetta er heitt og veikt þannig að þetta er aðal veikleikinn,“ segir hann.

Ef kvika myndi byrja að brjóta sér leið annars staðar þá yrði meiri fyrirvari og yrði mikill forboði að því. Það yrði ekki ólíkt því þegar kvikuhlaupið varð 10. nóvember.

„En það er mjög ólíklegt,“ segir Magnús.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert